Fréttir eftir árum


Fréttir

Dexta gaf HR búnað fyrir rannsóknir í varma- og straumfræði

21.12.2016

Gauti Hallsson og Ari Kristinn Jónsson takast í hendur og horfa í myndavélina

Gauti Hallsson ásamt Ara Kristni Jónssyni, rektor.

Framkvæmdastjóri Dexta ehf., Gauti Hallsson, afhenti Háskólanum í Reykjavík fyrir stuttu ýmsan búnað að gjöf fyrir tilraunir og mælingar í varmafræði og orkutækni. Gauti er fyrrverandi nemandi tækni- og verkfræðideildar HR og var í fyrsta útskriftarhópnum í vél- og orkutæknifræði.
 
Að sögn Indriða Sævars Ríkharðssonar, lektors við tækni- og verkfræðideild, verður búnaðurinn notaður við tilraunir og verklegar æfingar í varma- og rennslisfræði. „Þessi búnaður inniheldur varmaskipta af mismunandi stærð og gerð og tölvutengjanlega flæðimæla. Einnig er mælibúnaður til að mæla staum og aflnotkun á rafbúnaði hluti af gjöfinni.“ Að sögn Indriða nýtist slíkur búnaður til aflmælinga og bilagreininga auk þess sem hluti af búnaðnum sé tæki til að aflofta vökva í lokuðu varmakerfi.
 
Þeir nemendur sem helst munu nota búnaðinn eru nemendur í vél- og orkutæknifræði og vélaverkfræði. Einnig getur hann nýst öðrum nemendum og kennurum sem eru að gera rannsóknarverkefni á sviði varma- og straumfræði. „Það skiptir miklu máli að hafa svona búnað, bæði fyrir kennslu þar sem nemendur geta séð hvernig hinir raunverulegu íhlutir í varmakerfum líta út og virka og einng til að geta sett upp verklegar æfingar og tilraunir,“ segir Indriði.

Ari, Aguti, Indriði og Guðrún standa í hóp og líta í myndavélinaAri Kristinn og Gauti ásamt Indriða Sævari Ríkharðssyni og Guðrúnu Sævarsdóttur, forseta tækni- og verkfræðideildar.
Dexta orkutæknilausnir ehf. sérhæfir sig í hönnun og sölu á tæknilausnum og búnaði fyrir orkuflutningsferla (hitun og kælingu), varmaendurnýtingu og  aðra orku-, iðnaðar-, og framleiðsluferla. Verðmæti búnaðarins er um 1.000.000 krónur. Áður hefur fyrirtækið gefið HR varmadælu.