Fréttir eftir árum


Fréttir

Fyrsta árs nemendum hent út í djúpu laugina

19.9.2019

Ísland er einangrað

Svo virðist sem hryðjuverkamenn hafi dreift stökkbreyttu afbrigði af bólusótt víða um heim. Komið hafa upp staðfest tilfelli í nokkrum stórborgum, þar með talið New York, Berlín, London, París, Tokyo, Shanghai, Rio de Janeiro, Sydney og Istanbul. Þetta stökkbreytta afbrigði virðist ónæmt fyrir hefðbundinni bólusetningu og því erum við varnarlaus gegn veirunni. Landlæknir hefur því, í samráði við ríkisstjórnina, fyrirskipað nær algera afkvíun Íslands til að reyna að hindra að sjúkdómurinn berist hingað til lands.

Fimmtudagur í síðustu viku hófst með afar óvenjulegum hætti hjá fyrsta árs nemendum í tæknifræði og verkfræði. Þar sem þau sátu í stærstu kennslustofunni í HR var spilað fréttaskot þar ofangreindar upplýsingar voru lesnar upp af fréttamanni Stöðvar 2.

Hamfaradagar 2019Hamfaradagar2019-1

Að því loknu var nemendum skipt í hópa sem þurftu að glíma við þetta verkefni sem varð smátt og smátt ljósara er leið á morguninn. Þetta var gert samkvæmt venju sem hefur skapast á hinum árlegu Hamfaradögum iðn- og tæknifræðideildar og verkfræðideildar. Hver hópur átti svo að vera kominn með drög að áætlun fyrir klukkan þrjú sama dag. Áætlanirnar urðu að vera raunhæfar og hafa það að markmiði að hefta útbreiðslu veirunnar eins og hægt var og um leið huga að grunnþörfum samfélagsins og sjálfbærni í þrjá mánuði, og jafnvel lengur, því ekki var hægt að treysta á aðföng erlendis frá.

Lærdómsríkt ævintýri

Hamfaradagar2019-2„Nemendurnir stóðu sig afar vel og lögðu mikla alúð í hópstarfið og vangaveltur. Þau fengu þetta stóra og óljósa verkefni í fangið og var í rauninni hent út í djúpu laugina. Þau tóku ákvarðanir um hvaða þætti þau vildu leysa og útfærðu lausnir. Það var gaman að hlusta á kynningarnar, enda oft frábærar hugmyndir og útpældar útfærslur, og augljóslega heilmikil vinna sem lá að baki,“ segir Haraldur Auðunsson, dósent og forstöðumaður kennslu við verkfræðideild HR en hann hefur haft umsjón með Hamfaradögum síðastliðin ár. „Við vorum að fá niðurstöður úr kennslumatinu, og það er ljóst að nemendur eru almennt nokkuð sáttir við þetta ævintýri enda lærðu þeir eitt og annað um landið, hópastarf, og ekki síst kynntust þeir betur samnemendum sínum.“

Nemendur frá Frakklandi og Skotlandi tóku þátt

Gestir á Hamfaradögum í ár voru nemendur frá Frakklandi og Skotlandi sem taka þátt í Dahoy-verkefni í áhættufræðum. Þau nutu m.a. leiðsagnar Þórðs Víkings Friðgeirssonar, lektors við verkfræðideild og forstöðumanns CORDA, rannsóknarseturs í áhættufræðum við HR, náms- og starfsráðgjafa HR og forstöðumanns alþjóðaskrifstofu. Nemendurnir voru í HR alla vikuna og sátu vinnustofur um ýmislegt sem tengist stjórnun og ákvarðanatöku í erfiðum og jafnvel hættulegum aðstæðum. Nemendurnir tóku svo þátt í Hamfaradögum, ásamt nemendum HR, á fimmtudag og föstudag.

Dahoy-i-HR

Franski og skoski nemendahópurinn ásamt kennurum og sérfræðingum frá HR.