Fyrsta doktorsvörnin við lagadeild
Milosz Hodun varði í dag doktorsritgerð sína við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Hann er fyrsti neminn sem lýkur doktorsnámi við deildina en doktorsnám í lögfræði við HR hófst árið 2009.
Vörnin fór fram í stofu M104 í Háskólanum í Reykjavík. Doktorsritgerðin heitir Doctrine of Implied Powers as a Judicial Tool to Build Federal Polities. Í henni eru niðurstöður samanburðarrannsóknar á svokölluðum „federalizing“ áhrifum bandaríska hæstaréttarins á 18. og 19. öld og Evrópudómstólsins núna á mótunarárum ESB. Andmælendur voru dr. Helle Krunke, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, dr. Tuomas Ojanen, prófessor við Háskólann í Helsinki og Gary Lawson, prófessor við Boston University. Dr. Ragnhildur Helgadóttir var leiðbeinandi Miloszar við HR.
Milosz er pólskur og hefur búið á Íslandi undanfarin ár. Meðan hann var búsettur hér var hann um skeið formaður Félags Pólverja á Íslandi. Hann heldur til Póllands innan skamms þar sem hann hefur störf sem aðstoðarmaður forseta landsins.
Nú sinna tveir doktorsnemar rannsóknum við lagadeild HR.