Fréttir eftir árum


Fréttir

Flytur þekkingu frá Íslandi til Malaví

22.12.2015

Tímamót urðu þann 17. desember síðastliðinn þegar Tufwane Mwagomba varð fyrsti fyrrum nemandi í Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna til að verja meistaraverkefni sitt við Iceland School of Energy (ISE) við HR. 

Verkefni Tufwane heitir „Preliminary Technical and Economic Feasibility Study of Binary Power Plant for Chiweta Geothermal Field, Malawi“ en hann er frá Malaví. Hann hefur stundað nám við háskólann í gegnum samning sem Jarðhitaskólinn og HR gerðu með sér 2013 en samkvæmt honum tekur HR á móti fyrrum Jarðhitaskólanemum í meistaranám í verkfræði á þeim fræðasviðum sem tengjast nýtingu jarðhita.

Í viðtali sem tekið var við Tufwane fyrir rúmu ári síðan sagði hann Malaví vera að ganga í gegnum spennandi tímabil. „Landið liggur á Austur-Afríska flekasvæðinu en við höfum ekki þróað tækni til nýtingu jarðvarmans. Við notum vatnsorkuver en þau eru ekki mjög áreiðanleg því stundum verða mikil vatnsveður sem setja strik í reikninginn. Möguleikarnir eru svo sannarlega til staðar og við munum þurfa mikla sérfræðiþekkingu til að byggja upp iðnað í kringum endurnýjanlega orkugjafa.“ Nú þurfi hann að læra sem mest og flytja þekkinguna héðan til síns heimalands. 

Tveir aðrir fyrrum Jarðhitaskólanemar stunda nú framhaldsnám við ISE. Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna er rekinn samkvæmt samningi milli Orkustofnunar og Háskóla Sameinuðu þjóðanna í Tókýó og hóf starfsemi sína á Íslandi árið 1979. Skólinn býður árlega upp á 6 mánaða sérhæft nám í jarðhitafræðum, sem er aðallega ætlað verkfræðingum og raunvísindamönnum frá þróunarlöndunum sem starfa að jarðhitaverkefnum.

Við óskum Tufwane hjartanlega til hamingju.

TufwaneÁ myndinni eru auk Tufwane þau Lúðvík S. Georgsson forstöðumaður Jarðhitaskólans, María Sigríður Guðjónsdóttir aðjúnkt við HR og prófdómari í vörninni og Einar Jón Ásbjörnsson, lektor við HR og leiðbeinandi Tufwane í meistaraverkefninu.

Lesa viðtalið við Tufwane Mwagomba