Fréttir eftir árum


Fréttir

Fyrsti íslenski geimfarinn kennir við HR

22.11.2018

Bjarni Tryggvason, fyrsti og eini íslenski geimfarinn, mun kenna nýtt námskeið í Háskólanum í Reykjavík í desember. Námskeiðið, Space Systems Design, er svokallað þriggja vikna námskeið en þau eru haldin að loknum prófum á hverri önn. Í þeim er námsefnið sett í hagnýtt samhengi og oft er fenginn gestakennari í kennsluna sem miðlar af sinni reynslu úr atvinnulífinu eða erlendis frá, eða eins og í þessu tilviki, úr geimnum.

Heimsókn sem vatt upp á sig

Bjarni lauk geimfaraþjálfun hjá NASA og hefur þróað hugbúnað sem hefur verið notaður í geimstöðum og geimskutlum. Hann starfar við flugvélaprófanir og flugþjálfun og sinnir jafnframt rannsóknum og kennslu í verkfræði á sviði loftaflsfræði, straumfræði, stærðfræði og hönnun kerfa fyrir geimferðir og er höfundur rúmlega  50 vísindagreina. Bjarni hélt fyrirlestur í HR í mars á þessu ári og átti í kjölfarið í samskiptum við Ara Kristinn Jónsson, rektor háskólans og fleiri starfsmenn HR. „Þegar ég var á Íslandi heimsótti ég bæði HR og HÍ og spjallaði við meistaranema um verkefni þeirra. Í framhaldinu hitti ég Ara Kristinn og við höfðum margt áhugavert að ræða um, enda er hann mikill áhugamaður um flug. Það var í gegnum okkar samskipti að ákveðið var að ég myndi kenna sérstaka kúrsa í HR. Mig hefur lengi langað að kenna á Íslandi en hef hreinlega ekki haft tíma til þess fyrr en nú.“

Frá hugmynd að smíði

Space Systems Design er, eins og nafnið gefur til kynna, hönnunarnámskeið þar sem tekið er mið af sérstökum aðstæðum í geimnum. Umsjónarmaður þess er dr. Ármann Gylfason, dósent við tækni- og verkfræðideild. Hann segir áherslur deildarinnar á hönnunardrifna kennslu hafa kveikt neistann hjá Bjarna að vinna með deildinni og nemendum hennar. „Í slíkri kennslu eru verkefnin þannig að heildarhönnunarferillinn er kláraður frá hugmynd að smíði vélbúnaðar. Bjarni var að leita að nemendahópi til að hanna og útfæra ákveðinn búnað sem gæti farið í geimflug.“ Ármann segir nemendur munu hittast á hverjum morgni og hlýða á fyrirlestra og umræður. Eftir hádegið vinni þeir svo að eigin hönnunarverkefnum. Verkefnin geti verið eitthvað á borð við könnunarfar eða flutningsgeimfar fyrir tunglferðir en þau verði ákveðin í byrjun námskeiðs. „Þau læra að hanna hluti sem verða fyrir álagi af allt öðru tagi en við erum vön að fást við; gríðarlegar hitasveiflur, og lofttæmi. Ofan á það læra þau að uppfylla ströng skilyrði sem gilda um hönnun tækjabúnaða fyrir geimferðir, sér í lagi með tilliti til öryggis og áreiðanleika.“

Bjarni-Tryggvason-vid-flugvel

Bjarni er reyndur flugmaður og starfar meðal annars við flugþjálfun.

Vill sjá fleiri Íslendinga í geimrannsóknum

Bjarni segist hlakka til að vinna með nemendum Háskólans í Reykjavík. „Það verður ánægjulegt að kynna fyrir þeim alls konar hluti sem hægt er að gera í geimnum og frá geimnum. Ég er bjartsýnn á að ég muni vinna með góðum nemendum og að þeir geti þegar fram líða stundir látið til sín taka í geimrannsóknum. Þetta verður þó ekki í fyrsta sinn sem Íslendingar koma að slíku því Ari Kristinn varði nokkrum árum hjá NASA og ég hef sinnt verkefnum á þessu sviði. En við ættum á komandi árum að sjá fleiri Íslendinga í geimrannsóknum.“ Bjarni fæddist á Íslandi en flutti átta ára að aldri til Kanada, þar sem hann hefur búið síðan. Aðspurður hvernig honum lítist á að dvelja á Íslandi yfir dimmasta tíma ársins segist hann vera ýmsu vanur. „Það er nú strax kominn smá snjór í kringum húsið mitt hérna í London, Kanada og hann á aðeins eftir að aukast á næstu mánuðum. Næturnar í Reykjavík eru kannski lengri en kuldinn er miklu meiri hér í Kanada!“

Fyrir nemendur og aðra áhugasama

Námskeiðið verður haldið dagana 26. nóvember til 14. desember. Þeir nemendur sem hafa lokið, eða eru á, þriðja ári í verkfræði eða tæknifræði geta sótt um í námskeiðið. Útskrifaðir verkfræðingar og tæknifræðingar geta einnig skráð sig á námskeiðið meðan pláss leyfir. Það má lesa meira um námskeiðið Space Systems Design og umfjöllunarefni þess í kennsluskrá HR á vefnum:

https://www.ru.is/namid/kennsluskra/

Námskeiðið má finna m.a. með því að velja MSc í rafmagnsverkfræði

Sé frekari upplýsinga óskað, vinsamlega hafið samband við verkefnastjóra við skrifstofu tækni- og verkfræðideildar:

Hjördís Lára Hreinsdóttir

Verkefnastjóri - tæknifræði og MSc verkfræði

hjordislh(at)ru.is 
599 6480

Súsanna María B. Helgadóttir

Verkefnastjóri - BSc verkfræði

susannah(at)ru.is
599 6482