Fréttir eftir árum


Fréttir

Fyrsti íslenski geimfarinn með fyrirlestur í HR

14.3.2018

Bjarni V. Tryggvason, fyrsti og eini íslenski íslenski geimfarinn, hélt fyrirlesturinn „Ævintýri lífs míns: verkfræði og flug“ í Háskólanum í Reykjavík miðvikudaginn 14. mars, í samstarfið við ISAVIA.

Bjarni Tryggvason geimfariBjarni fór yfir ævistarf sitt í fyrirlestrinum og lýsti þeim ótal mörgu verkefnum sem hann hefur tekið þátt í. Fyrir utan geimflug má nefna flugvélaprófanir og rannsóknir og þróun á sviði verkfræði. Hann hefur þróað hugbúnað sem notaður hefur verið í rússnesku MIR geimstöðinni, bandarískum geimskutlum og alþjóðlegu geimstöðinni (ISS). Fyrirlestrasalurinn í HR var þétt setinn enda frásagnir Bjarna afar áhugaverðar. Hægt er að horfa á upptöku af fyrirlestrinum hér.

Fræðimaðurinn fljúgandi

Bjarni lauk geimfaraþjálfun hjá NASA og flaug með bandarískri geimskutlu árið 1997. Í fyrirlestrinum lýsti hann þeirri reynslu og sagði meðal annars að hver sá einstaklingur sem legði í slíka för þyrfti að vera búinn að sætta sig við að hún gæti verið sú síðasta. Hann sagði jafnframt að þó hann væri ef til vill fyrsti íslenski geimfarinn,  þyrfti hann ekki að vera sá eini um alla framtíð.

Bjarni Tryggvason geimfari hélt fyrirlestur í Háskóla Reykjavíkur við góðan róm.Í fyrirlestrinum fór hann jafnframt yfir sögu flugsins og lýsti því meðal annars þegar hann flaug líkani af fyrstu flugvélinni sem flaug. Bjarni er afar reynslumikill flugmaður og hefur að loknu starfi hjá NASA ára kennt við alþjóðlegan kanadískan flugskóla fyrir prófunarflugmenn. Hann hefur jafnframt verið öflugur fræðimaður og hefur kennt loftaflsfræði, straumfræði, stærðfræði og hönnun kerfa fyrir geimferðir í fjölmörgum háskólum.

Eru geimverur ekki til?

Að fyrirlestri loknum var orðið laust á fundinum og fékk m.a. Bjarni spurningu um fljúgandi furðuhluti, eða UFO. Hann sagði það ekki mögulegt að til væru aðrar verur í alheiminum sem byggju yfir tækni til að ferðast þær gríðarlegu vegalengdir sem eru á milli sólkerfa og héldu sig í felum.

Bjarni fæddist á Íslandi árið 1945 en fluttist árið 1953 til Kanada, þar sem hann hefur búið síðan. Hann hefur dvalið á Íslandi undanfarnar vikur og unnið með ISAVIA að þróun á flugvélaprófunum á Keflavíkurflugvelli.