Fréttir eftir árum


Forsíðufréttir

Fyrsti nemendahópurinn í Haftengdri nýsköpun brautskráður

27.9.2017

Fyrstu nemendurnir með diplóma í haftengdri nýsköpun voru brautskráðir síðastliðinn föstudag frá Háskólanum í Reykjavík. Haftengd nýsköpun er diplómanám sem þjálfar nemendur í að nýta þekkingu viðskipta- og sjávarútvegsfræða til að vinna að raunhæfum verkefnum.

Boðið er upp á bæði staðar- og fjarnám en haftengd nýsköpun er samstarfsverkefni Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri. Námskeið eru fjarkennd en staðar- og verklotur fara fram í Vestmannaeyjum og þar fór brautskráningin fram.

Brautskráðir nemendur úr haftengdri nýsköpun standa ásamt fulltrúum háskólanna með Heimaklett í baksýnAri Kristinn Jónsson rektor HR, Valgerður Guðjónsdóttir framkvæmdarstjóri Visku, Hjörleifur Einarsson prófessor við HA, Svanhildur Eiríksdóttir, Gunnar Heiðar Þorvaldsson, Guðný Bernódusdóttir, Hallgrímur Þórðarson, Gígja Óskarsdóttir fh. Leifs Jóhannessonar, Páll Ríkharðsson forseti viðskiptadeildar HR, Hrefna Briem forstöðumaður BS-náms í viðskiptafræði við HR, Ásgeir Jónsson aðjúnkt við HR.

Kepptu fyrir hönd HR í Kaupmannahöfn

Útskriftarhópurinn tók þátt í þverfaglegu námskeiði sem haldið er í Háskólanum í Reykjavík á hverju vori og heitir Nýsköpun og stofnun fyrirtækja. Í námskeiðinu þróuðu þau snarl úr keilu sem þau kalla Volcano Seafood. Hópurinn fékk fyrstu verðlaun í námskeiðinu og tók þar af leiðandi þátt í alþjóðlegri nýsköpunarkeppni háskólanema í Kaupmannahöfn fyrir hönd HR í lok september sem heitir Venture Cup. Þar kynntu þau tvær tegundir af snarlinu, sem hefur verið þróað í mikilli og góðri samvinnu við fyrirtæki í Eyjum.

Volcano_Seafood_1506517108537Hópurinn frá Vestmannaeyjum að kynna vöruna sína í Venture Cup í Kaupmannahöfn.