Fréttir eftir árum


Fréttir

„Fyrstu geimfararnir til Mars munu taka með sér heklunálar“

1.4.2019

Hvernig hús ætlum við að byggja á Mars? Hvernig fötum verða fyrstu áhafnirnar sem ferðast þangað? Það er bráðnauðsynlegt að fá hönnuði að borðinu þegar reynt er að leysa slík verkefni. Hönnuðir nálgast vandamálin á annan hátt en vísindamenn og finnst það kostur að vita sem minnst um viðfangsefnið þegar hafist er handa, þannig sé hægt að vera opinn fyrir því að hugsa málin upp á nýtt og finna bestu lausnina.

Þetta var meðal þess sem kom fram í erindum þeirra Michael Morris og Karl Aspelund á fyrirlestri sem hét Lífið á Mars sem var haldinn í HR á föstudaginn síðasta. Þeir starfa fyrir NASA og 100 Year Starship-áætlunina en fyrirlesturinn var haldinn í samvinnu við bandaríska sendiráðið og var hluti af dagskrá Hönnunarmars 2019.

Life on Mars: Horfa á fyrirlesturinn

Verkefnin næstum óteljandi

Viðburðurinn hófst á því að Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, bauð gesti velkomna og sagði í stuttu máli frá viðfangsefnum sínum hjá NASA Ames Research Center. Hann starfaði hjá stofnuninni í 10 ár og hlaut viðurkenninguna NASA Group Achivement Award fyrir vinnu sína við könnunarfar sem sent var til Mars (Mars Exploration Rover). Meðal þess sem hann sagði í erindi sínu var að það væri að svo ótalmörgu að hyggja við ferðir til Mars að verkefnin væru næstum óteljandi. Hver og einn vísindamaður eyði mörgum árum í eitt afmarkað svið ferðarinnar, eins og til dæmis það hvernig á að geyma eldsneyti til heimferðar.

Maður heldur fyrirlesturAri Kristinn Jónsson, rektor HR.

Þrívíddarprentuð hús

Michael Morris er arkitekt og meðstofnandi SEArch+, Space Exploration Architecture og hefur, með styrkjum frá geimferðastofnuninni NASA, hannað nokkrar útfærslur af híbýlum fyrir menn á Mars ásamt verkfræðingum stofnunarinnar. „Það er dýrmætt að fá hönnuði til að þróa íverustaðina, sérstaklega fyrir þá sem munu ferðast til plánetunnar.“ Hann hafi þurft að berjast fyrir hverjum fermetra sem var ætlaður undir fólk í geimförum sem er verið að þróa núna fyrir ferðirnar. Hönnuðir geti komið með annað sjónarhorn. „Það að vita ekkert um málið er gott, við byrjum á ákveðnum núllpunkti og spyrjum fullt af spurningum og nálgumst þetta á allt annan hátt en verkfræðingur sem hefur einbeitt sér að því að finna lausn við tæknilegu vandamáli í 5-10 ár.“

Allar teikningar af húsum sem hann hefur sett fram ganga út frá því að þau séu þrívíddarprentuð, jafnvel úr ís. Þau hafa stór beð með gróðri inni til að bæta andrúmsloftið og eru marglaga til að verja fólkið fyrir andrúmsloftinu á plánetunni. Michael kennir jafnframt við þrjá háskóla í Bandaríkjunum: The Cooper Union, Thenewschool - Parsons School of Design, og Pratt Institute.

Maður heldur fyrirlesturMichael Morris.

Geimfarar með heklunálar

Karl Aspelund er hönnuður og mannfræðingur og jafnframt kennari við háskólann í Rhode Island. Hann er einn af fjölmörgum fræðimönnum sem mynda 100 Year Starship samtökin sem hafa það að markmiði að gera ferðir út fyrir sólkerfið raunhæfar eftir 100 ár. Karl er í forsvari fyrir rannsóknahóp sem þróar „ferðafatnað“ geimfara. „Það er ekki þannig að hver og einn geti tekið með sér þau föt sem hann vill. Það þarf að hugsa út í hreinlæti, plássleysi, þyngd og um milljón aðra hluti. “ Þannig sé verið að skoða ný efni sem ekki þarf að þvo oft. Hann sagði jafnframt að það verði að skoða mannlegu hliðina og þar komi mannfræðingurinn við sögu. „Það er ekki hægt að setja alla í eins búninga því sagan hefur margsinnis sýnt að fólk vill tjá sig á einn eða annan hátt með fatnaði.“ Hann segir það fólk sem fara muni til Mars verða að kunna að endurvinna allt sem þau fara með, laga fatnaðinn og nýta allt efni. „Fyrstu geimfararnir til Mars munu taka með sér nál og tvinna og heklunálar.“ Þessi hugsunarháttur og nýtni geti einnig nýst okkur til að bjarga plánetunni sem við búum á núna. Karl hefur meðal annars gert rannsóknir á sviði sálfræði og mannfræði til að sjá hvað fólk þarf að hafa með sér í langa ferð þar sem er afar takmarkað rými til þess að taka með sér persónulega muni. „Það er þetta sem við hönnuðirnir gerum betur en eðlisfræðingarnir og verkfræðingarnir öllu jöfnu, að gera  ráð fyrir hinu mannlega.“

Maður heldur fyrirlesturKarl Aspelund.

Afturhvarf til miðalda

Karl og Michael tóku við spurningum úr sal eftir erindi sín og ræddu meðal annars við gesti um hversu fróðlegt það væri að horfa um öxl um leið og horft er til framtíðar. Þeir sögðu til dæmis oft vera litið til íslensks og grænlensks samfélags fyrr á öldum, eða um 1200-1300, varðandi lausnir forfeðra okkar við annmörkum sem óbyggt og strjálbýl landsvæði settu þeim. Einnig minni undirbúningur ferðalaga til Mars og annarra pláneta að einhverju leyti á skipulag atvinnulífs á miðöldum. „Það mætti jafnvel líkja undirbúningi við Marsferðir við byggingu dómkirkju á miðöldum. Þar stóð fólk frammi fyrir því að vinna alla starfsævina að einhverju sem það vissi að það myndi aldrei líta augum fullgert,“ sagði Michael. Karl bætti við að sú skýra hlutverkaskipan minni einnig á það tímabil í mannkynssögunni. „Það er ákveðið kerfi sem verður til aftur, eins og samband meistara og lærlinga á miðöldum og sterk fagleg gildi og fagfélög. Við þurfum líka að taka okkur sjálf út úr myndinni og einblína á verkefnið sem þarf að leysa og skila ákveðinni færni og þekkingu til næstu kynslóðar."

Fundargesitr hlýða á fyrirlesara