Fréttir eftir árum


Fréttir

Fyrstu nemendur Háskólagrunns HR á Austurlandi sestir á skólabekkinn

18.8.2021

Fyrsti kennsludagur Háskólagrunns HR á Austurlandi var fyrir stuttu en þetta er í fyrsta sinn sem sérhæft aðfararnám er kennt með slíkum hætti í landshlutanum.  

„Það er ánægjulegt að fá að taka á móti nýjum nemendum hér á Austurlandi og styðja þá í að ná markmiðum sínum,“ segir Bjarni Þór Haraldsson, nýráðinn verkefnastjóri uppbyggingar háskólanáms á Austurlandi.

Stafrænt nám en staðbundið

Námið er staðbundið með stafrænum lausnum og hugsað til þess að koma til móts við þarfir nemenda og fyrirtækja á Austurlandi. Um er að ræða aðfaranám fyrir háskóla þar sem nemendur geta undirbúið sig fyrir nám í verk- og tæknifræði eða tölvunarfræði. „Tíu nemendur hófu nám og hópurinn er öflugur. Það er ánægja meðal þeirra að geta stundað aðfaranám hér á Austurlandi. Mikil áhersla er lögð á góða samvinnu nemenda og kennara og að nemendur hafi stuðning hver af öðrum.“ Bjarni mun sjá stuðning við nemendur á Austurlandi og meðal annars sinna dæmatíma- og verkefnaaðstoð.

Haskolagrunnur_austurlandi

Kennt er í Fróðleiksmolanum á Reyðarfirði.

Næsta skref er nám í tæknifræði

Háskólagrunnur HR á Austurlandi er samstarfsverkefni Austurbrúar, Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri, fyrirtækja og sveitarfélaga á svæðinu, auk menntamálayfirvalda. Verkefnið snýr að uppbyggingu háskólastarfsemi á Austurlandi og er nú unnið að tillögum um uppbyggingu B.S.-náms í tæknifræði sem mun styðja við atvinnulífið á Austurlandi. Einnig er unnið að frekari þróun á þjónustu við stað- og fjarnema á Austurlandi óháð því hvaða nám þeir stunda.