Fréttir eftir árum


Fréttir

Gáfu ekkert eftir og skemmtu sér konunglega

6.8.2019

RU Racing tók þátt í fjórða sinn í alþjóðlegu Formula Student keppninni í júlí sl. Liðið var stofnað í HR árið 2015 og samanstendur af nemendum úr öllum deildum Háskólans í Reykjavík. Meðlimir þess hanna og smíða Formúlubíl á hverju ári innan veggja háskólans með það að markmiði að gera bílinn léttari, kraftmeiri og áreiðanlegri en þann sem gerður var árinu á undan.

Nemendur standa í kringum kappakstursbílRU Racing á keppnisbrautinni.

Formula Student er ein stærsta keppni milli háskóla sem er haldin víðsvegar um heim á hverju ári. RU Racing mætti á brautina TT Circuit í Assen í Hollandi 8. júlí en þar voru einnig 56 önnur lið frá evrópskum háskólum til að taka þátt í hönnunar- og akstursgreinum keppninnar á formúlubílum sem þau hanna, smíða og keyra sjálf. Liðið nýtti sér að sjálfsögðu góða aðstöðu innan háskólans og var í samstarfi við fjöldann allan af fyrirtækjum, meðal annars nokkur af stærstu tæknifyrirtækjum landsins á borð við Marel, Össur og CCP, sem styrkja liðið með einum eða öðrum hætti.

Nemendur standa í kringum kappakstursbílÞað þarf að huga að mörgu í formúlukeppni.

Að sögn liðsstjórans Andra Björns Einarssonar voru liðin full af keppnisanda á sama tíma og þau hjálpuðust að og skemmtu sér eins og þau væru mætt á útihátíð. „Krakkarnir okkar gáfu ekkert eftir í þeim efnum og börðust alveg til enda ásamt því að skemmta sér konunglega allan tímann.“

Yfirlitsmynd af fjölda kappakstursbíla