Sýndarveruleiki, forritun, þrívíddarprentuð líffæri og kappakstursbíll á UTmessunni
Nýjasta tækni og vísindi
Sýning UTmessunnar var haldin í sjöunda skiptið í Hörpu laugardaginn 4. febrúar. Háskólinn í Reykjavík tók að venju þátt og gátu gestir prófað, skoðað og upplifað ýmis tækniundur nemenda og kennara. Markmið með sýningu UTmessunnar er að sjá marktæka fjölgun nemenda sem velja tæknigreinar í háskólum og að vekja áhuga almennings á upplýsingatækni og mikilvægi hennar á öllum sviðum daglegs lífs.
Í Norðurljósasal Hörpu stóðu starfsmenn og nemendur HR vaktina og tóku á móti gestum UTmessunnar. Hægt var að kynna sér nýja rannsókn sem stendur yfir þessa dagana á fælni í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu. Að rannsókninni koma bæði nemendur og kennarar við HR en í henni er framkallað fælniviðbragð með sýndarveruleika. Gestir gátu prófað vatnsfælniumhverfi, hræðslu við oddhvassa hluti og innilokunarkennd í öruggu umhverfi sýndarveruleikans. Verkefnið var tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands og fékk sérstaka viðurkenningu.
Einnig var hægt að setjast upp í kappakstursbíl sem nemendur í tæknifræði og verkfræði smíðuðu og keppti í Formula Student keppninni síðasta sumar. Nemendur í íþróttafræði mældu vöðvavirkni í golfsveiflu og gáfu ráð um hvernig væri hægt að bæta sveifluna. Hægt var að taka rúnt á litlum, loftknúnum bílum og skoða þrívíddarprentuð líffæri. Þá sýndu nemendur einnig verkefni sitt sem gengur út á að búa til tónlist og /sys/tur, félag kvenna í tölvunarfræði við HR, kenndu einfalda forritun á Arduino-smátölvur.