Fréttir eftir árum


Fréttir

Þurfti að tala fyrir meiri plastnotkun í ræðutíma

22.5.2019

Hafliði Stefánsson er nemandi í Háskólagrunni HR. Hann stefnir á tölvunarfræðinám við HR að loknu námi í tæknigrunni í Háskólagrunninum. Hann segir námið gefa góðan undirbúning fyrir háskólanám enda hefur hann þurft að stíga út fyrir þægindarammann. Hann segir það mikilvægt að mæta í tíma þó að fyrirlestrarnir séu aðgengilegir á netinu. Hafliði svaraði nokkrum spurningum um reynslu sína af náminu.

„Ástæðan fyrir því að ég valdi Háskólagrunn HR er sú að ég reyndi í tvígang að klára stúdentsprófið í gegnum fjarnám en það var engan veginn að ganga fyrir mig. Eftir að ég sá auglýsingu um háskólagrunninn, þá hugsaði ég að þetta væri tilvalið fyrir mig og því sótti ég strax um.“

Nemandi stendur á gangi í HRHvaða væntingar hafði þú?

„Væntingarnar sem ég hafði áður en ég byrjaði í náminu voru að fá sérstaklega góðan grunn fyrir komandi BSc-nám í tölvunarfræði sem ég myndi ekki fá í hefðbundnum framhaldsskóla eða menntaskóla. Háskólagrunnur HR hefur ekki brugðist að því leyti.“

Hvað kom þér mest á óvart og hvað ert þú ánægðastur með í náminu?

„Það sem kom mér mest á óvart voru svokallaðir ræðumennskutímar. Ég átti mjög erfitt með að koma fram áður en ég sat þá. Þessir tímar hafa hjálpað mér gríðarlega mikið og ég er ólýsanlega þakklátur fyrir að þeir séu hluti af íslenskukennslunni. Einnig kom mér skemmtilega á óvart hvað það er mikil forritun kennd í  tölvunarfræðigrunninum. Ég hafði lítið sem ekkert forritað og nú finnst mér eins og ég geti farið kvíðalaus inn í háskólann með þessa þekkingu á bakinu. Það sem ég er ánægðastur með í náminu er hversu persónulegt námið er. Það er ekkert mál að fá hjálp, hvenær sem er. Maður getur alltaf leitað til kennarana með hvað sem er.“

Manstu eftir skemmtilegu atviki úr náminu?

„Það er eitt eftirminnilegt atvik sem kom skemmtilega á óvart. Í einum ræðumennskutímanum var okkur sagt að flytja ræðu um ákveðið efni og vera annað hvort með eða á móti efninu. Allt í góðu með það og ég talaði á móti plasti og plastnotkun. Þegar allir höfðu lokið sínu máli, þá áttum við að fara aftur upp í ræðustól og nú áttum við að tala öfugt um efnið. Þar af leiðandi þurfti ég að tala um hversu gott og náttúruvænt plastið sé. Þetta var mjög erfitt en sérstaklega skemmtilegur tími, og það var mikið hlegið.“

Áttu góðar ráðleggingar til fólks sem vill fara í námið?

„Ég legg mikla áherslu á að mæta í tímana. Þó að flest allt efnið sé á netinu, þá er gríðarlega mikilvægt að mæta, vegna þess að kennarinn gæti alltaf komið með einhverja gullmola sem gætu nýst þér þegar kemur að verkefni eða prófi.“

Hvert stefnir þú að námi loknu?

„Ég stefni á að sækja strax um í tölvunarfræðideild HR eftir að hafa lokið við háskólagrunninn og að sjálfsögðu langar mig mest að klára BSc hérna í Háskólanum í Reykjavík.“

Hvað ætlar þú að gera í sumarfríinu?

„Það er frekar súrt að segja, en ég mun líklega vera að vinna mest allt sumarfríið en kannski maður skreppi í eina stutta útskriftarferð ef manni tekst að útskrifast.“

Það er opið fyrir umsóknir í Háskólagrunn HR og viðbótarnám við stúdentspróf til 15. júní.