Fréttir eftir árum


Fréttir

Gísli Hjálmtýsson er nýr forseti tölvunarfræðideildar

15.8.2017

Dr. Gísli Hjálmtýsson hefur verið ráðinn forseti tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík frá og með 16. ágúst. Hann tekur við stöðunni af dr. Yngva Björnssyni sem hefur verið forseti deildarinnar frá 2014.

Gísli hefur yfir þrjátíu ára reynslu sem frumkvöðull og stjórnandi á sviði upplýsingatækni og nýsköpunar og þekkingu á fjölbreyttum sviðum íslensks og alþjóðlegs viðskiptalífs. Hann hefur verið framkvæmdastjóri og meðal eigenda Thule Investments frá árinu 2004 og leitt fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum (e. venture and private equity). Hann hefur setið í stjórnum fjölda fyrirtækja, á Íslandi, í Evrópu og USA, allt frá nýsköpunarfyrirtækjum til skráðra félaga.

Gísli lauk doktorsprófi í tölvunarfræði frá University of California, Santa Barbara árið 1995 og BS-gráðu í stærðfræði og tölvunarfræði frá University of Rochester 1992. Eftir doktorspróf starfaði Gísli hjá AT&T Bell Laboratories. Frá árinu 2001-2007 var hann prófessor í tölvunarfræði og forseti tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík. Hann hefur birt yfir áttatíu vísindagreinar og haldið erindi á fjölmörgum ráðstefnum, hjá háskólum og fyrirtækjum. Gísli á yfir 20 einkaleyfi og er meðlimur í IEEE og ACM.

Gísli Hjálmtýsson