Fréttir eftir árum


Fréttir

Nýtt fjártæknisetur - gott umhverfi fyrir tilraunastarfsemi

12.12.2018

Háskólinn í Reykjavík hefur stofnað nýtt rannsóknarsetur á sviði fjártækni, eða FinTech á ensku, en tækni- og starfsumhverfi fjármálaþjónustu er að gerbreytast. Setrið er innan tölvunarfræðideildar en starfsemi þess mun verða þverfagleg milli deilda HR og mun jafnframt vera í góðum tengslum og samstarfi við atvinnulífið. Íslandsbanki er fyrsti samstarfsaðili setursins.

„Það að geta borgað með símanum sínum er dæmi um þjónustu sem telst til fjártækni,“ segir Kolbrún Eir Óskarsdóttir, verkefnastjóri nýja fjártæknisetursins við HR. „Fjártækni er eitthvað sem hefur vaxið mjög hratt á aðeins örfáum árum,“ segir Kolbrún. Hún segir viðfangsefni fjártækni vera að veita notendum fjármálafyrirtækja og stofnana betri þjónustu, einfalda greiðslukerfi og auka gagnsæi. „Markmið fjártæknisetursins er að þróa tækni og þekkingu fyrir framtíðina. Það eru sífellt fleiri sem nýta sér þjónustu sem telja má til fjártækni, þannig hefur fjöldi Evrópubúa sem nota snjalltæki til að greiða fyrir vörur eða þjónustu þrefaldast, frá 18% árið 2015 í 54% árið 2017 og þróun nýrra fjártæknilausna er sú grein sem er í hvað örustum vexti í norræna nýsköpunarsamfélaginu.”

Nemendur fá að spreyta sig

Nemendur í BSc-námi í tölvunarfræði við HR geta valið áherslulínu í lok fyrsta námsársins. Þeir ljúka þá fimm námskeiðum á ákveðnu sviði til að geta útskrifast með tiltekna áherslu. Ef valin er áherslulína í fjártækni fjalla skyldunámskeiðin um fjármálaverkfræði, afleiður og verðbréf auk valnámskeiða um áhættustýringu eða hagfræði. „Í fjártæknisetri búum við svo til raunhæf verkefni fyrir nemendur þar sem þeir fá að spreyta sig. Það er nefnilega svo mikilvægt að geta þróað nýjungar í öruggu umhverfi, oft er talað um slíkt umhverfi sem sandkassa, eða sandbox.“ Verkefnin munu verða á bæði BSc- og MSc-stigi og unnin í samstarfi við atvinnulífið. „Íslandsbanki, samstarfsaðili fjártækniseturs, kom í síðustu viku og kynnti fyrstu raunhæfu verkefnin sem nemendur vinna fyrir bankann. Við sjáum fyrir okkur að tæknin sem við þróum fyrir fjártækni og mörg þeirra verkefna sem verða þar til, geti nýst víðar, til dæmis fyrir Stafrænt Ísland og verðmætaverndun þegar kemur að afurðum í landbúnaði.“

Þrír einstaklingar standa í tröppunum í SólinniKolbrún, í miðjunni, ásamt tveimur nemendum sem hafa verið ráðnir inn í Fjártæknisetrið til að sinna ákveðnum verkefnum, Sigurði Helgasyni meistaranema í tölvunarfræði og Brynju Dagmar Jakobsdóttur, BSc-nema í tölvunarfræði og fjármálaverkfræði.

Bálkakeðjur efst á baugi

Ein af áherslum fjártækniseturs hefur verið fræðsla og umræður um bálkakeðjur, eða blockchain. „Flest fyrirtæki áætla að bálkakeðjur verði orðinn hluti rekstrarins árið 2020. Það eru kennarar við tölvunarfræðideild sem eru að rannsaka bálkakeðjur og nú þegar hafa nemendur unnið eftirtektarverð verkefni um notkun bálkakeðja í kosningum, svo dæmi sé tekið.“ Þess má einnig geta að HR er jafnframt meðlimur í Fjártækniklasanum sem rekur nýsköpunarsetur og hefur það að markmiði að efla nýsköpun í fjármálum og fjártækni.