Fréttir eftir árum


Forsíðufréttir

Grænn lífsstíll í skiptinámi

Ársfundur norræna samstarfsnetsins Nordlys haldinn í HR

15.6.2022

Nordlys, eitt af norrænum samstarfsnetum Háskólans í Reykjavík innan Nordplus kom saman á ársfundi í HR, þeim fyrsta í raunheimum í tvö ár. Þátttakendur eru starfsmenn alþjóðaskrifstofa norrænna háskóla og voru 27 mættir ásamt 10 í fjarfundabúnaði. Þema fundarins var grænn lífsstíll í skiptinámi. Alþjóðasvið HR skipulagði vinnustofuna og fengu nokkra aðila til að halda erindi.

Fyrirlestur fluttu m.a. Eiríkur Örn Þorsteinsson, fræðslu- og kynningarfulltrúi Sorpu, bar fyrirlestur hans heitið Consuming Less - Consuming Better. Heli Rahko frá Háskólanum í Turku tilkynnti niðurstöður nemenda rannsóknar um umhverfisvænan ferðamáta þar sem kom fram að nemendur vilja sannarlega ferðast á umhverfisvænan máta þegar þeir fara í skiptinám, en það vantar alhliða upplýsingar þar sem þau geta kynnt sér ferðamöguleika, almennar upplýsingar um kolefnislosun og betri kortlagningu á vistvænum lífsstíl. 

P1107566

Alls mættu 27 starfsmenn alþjóðaskrifstofa norrænna háskóla á fundinn auk þess sem tíu voru mættir í fjarfundabúnaði.

Dagmar Óladóttir, forseti umhverfis og samgöngunefndar SHÍ hélt erindi og fjallaði um starf starf nefndarinnar og sína eigin reynslu af umhverfisvænu skiptinámi erlendis. Dr. Snjólaug Ólafsdóttir fjallaði um sjálfbærni og hvernig við þurfum að skoða hegðun okkar í stóra samhenginu, ekki bara þegar kemur að umhverfisvænum ferðamáta heldur lífsstíl almennt og þá sérstaklega í tengslum við neyslu.

Að lokum hlýddu gestir á fyrirlestur frá fyrirtækinu GreenBytes sem sérhæfir sig í að hjálpa veitingastöðum að draga úr matarsóun. Til þess er nýtt gervigreind sem spáir fyrir um komandi sölu og veitir þannig upplýsingar um hve mikið þarf að kaupa inn.

Í framhaldi af fyrirlestrum var haldin vinnustofa sem stýrt var af Árnýju Láru Sigurðardóttur, verkefnastjóra á alþjóðasviði Háskóla Íslands, en HÍ er einnig aðili að Nordlys. Fulltrúar hvers lands komu með tillögur um hvernig hægt væri að safna saman upplýsingum um umhverfisvæna valkosti og gera aðgengilegar fyrir skiptinema sem eru að koma inn í viðkomandi land. Markmiðið er að hafa áhrif á viðhorf og hegðun nemenda sem koma í skiptinám þannig að þeir hugsi ekki um dvöl sína sem ferðamenn heldur frekar sem gestir og geti kynnt sér leiðir til að tileinka sér grænan lífsstíl í skiptináminu á aðgengilegan hátt.