Fréttir eftir árum


Fréttir

Grunnskólanemar keppa í lestri til að kenna tækjum íslensku

Lestrarkeppni grunnskólanna er hafin á samromur.is

23.4.2020

Framtíð íslenskrar tungu stendur og fellur með því að börn og unglingar noti tungumálið. Til að svo verði áfram þarf að tryggja að tæknin skilji raddir barna og unglinga, sem nú tala við flest sín tæki á ensku.

Því hefur Lestrarkeppni grunnskólanna nú verið hleypt af stokkunum á samromur.is þar sem keppt er um fjölda setninga sem nemendur lesa inni á síðunni. Þannig getur samstarf skóla, heimila og barna, ásamt svolitlu keppnisskapi, tryggt að íslenskan verði gjaldgeng í tölvum og tækjum og að tungumálið lifi af í stafrænum heimi.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands er, ásamt Vigdísi Finnbogadóttur fyrrum forseta og sendiherra tungumála hjá UNESCO, verndari Almannaróms og mun hann veita sigurskólunum viðurkenningar.

Maður talar í símaHér fjallar hann um keppnina og hvetur ungmenni til að taka þátt

Þegar söfnuninni er lokið verður gagnasafnið gefið út með opnu leyfi. Þeir sem vilja þróa lausnir fyrir íslenska tungu geta notað gagnasafnið endurgjaldslaust, til að mynda fyrir íslenskt raddstýrt viðmót í tækjum og tólum, lestrarþjálfun, rauntímatextun á sjónvarpsefni og rauntímaþýðingar.

Almannarómur og Mál- og raddtæknistofa Háskólans í Reykjavík standa fyrir Lestrarkeppni grunnskólanna.