Fréttir eftir árum


Fréttir

"Hægt að draga hellings lærdóm af þessu"

Nýsköpun í HR - björgunarbúnaðurinn SEA SAVER

23.5.2022

Nokkrir nemendur í tæknifræði stóðu í ströngu í Nauthólsvíkinni á dögunum þegar þeir prófuðu afrakstur vinnu sinnar í þriggja vikna námskeiði vorannar.

Þrír menn standa niðri við sjó. Einn heldur við sjóbjörgunarbúnað, annar heldur á fjarstýringu fyrir búnaðinn og sá þriðji fylgist með.

Þeir Atli Örn Friðmarsson, Bjarki Guðjónsson og Haukur Einarsson, undir handleiðslu Guðmundar Kristjánssonar, fagstjóra í rafmagnstæknifræði, hönnuðu björgunarbúnaðinn SEA SAVER í samstarfi við samnefnt fyrirtæki. 

Um er að ræða bát sem er hannaður til að fylgja eftir og bjarga fólki úr sjó. Ef manneskja fellur útbyrðis er hægt að senda bátinn af stað og fjarstýra honum í átt að þeim sem er í sjónum sem festir sig svo í net sem er fast við bátinn og svo er honum stýrt til baka. Næstu skref eru að útbúa búnaðinn þannig að hann finni skipverjann sjálfkrafa.

Verkefnið er dæmi um vel heppnað samstarf við atvinnulífið sem HR leggur mikið upp úr en hugmyndina að björgunarbúnaðinum eiga feðginin Ágúst Karlsson og Ásta Karen Ágústsdóttir. SEA SAVER verkefnið fékk styrk frá Tækniþróunarsjóði fyrir fjóra nema til að vinna að búnaðinum í sumar og koma með úrbætur.