Fréttir eftir árum


Fréttir

Allt tilkall til hafsvæða tapast sökkvi heilu ríkin í sæ og verði óbyggileg

Dr. Snjólaug Árnadóttir kynnir nýútkomna bók sína um loftslagsbreytingar og mörk hafsvæða

8.4.2022

Dr. Snjólaug Árnadóttir, lektor við lögfræðideild, kynnti í dag nýútkomna bók sína Climate Change and Maritime Boundaries. Bókin er gefin út af Cambridge University Press og er Snjólaug í hópi örfárra Íslendinga sem gert hafa samning við þetta virta forlag. Bókin, sem byggir á doktorsritgerð Snjólaugar, var ein sjö ár í vinnslu en að doktorsnámi loknu hlaut hún þriggja ára nýdoktorastyrk frá Rannsóknasjóði Íslands og nýtti þann tíma til að vinna í handritinu og bæta við stórum kafla um tengsl ríkja til umhverfisverndar og samstarfs. 

 

IMG_6964

 

Tilkall til hafsvæða byggist á staðsetningu strandlengjunnar og stöðu eyja, kletta og flæðiskerja yfir sjávarmáli. Nýjustu spár gera ráð fyrir að meðal hækkun sjávarmáls í heiminum geti náð einum metra árið 2100 ef ríkjum tekst að halda hækkun hitastigs innan við 2° C. Ef hitinn hækkar umfram það má gera ráð fyrir margra metra hækkun. Þetta mun hafa áhrif á lífsskilyrði a.m.k. 300 milljóna manna fyrir árið 2050 en brottflutningur þeirra mun aftur hafa áhrif á það hvort einstakar eyjur teljist byggilegar og geti þar með réttlætt tilkall til hafsvæða. Þegar eyjur breytast í óbyggilega kletta eða sker geta ríki misst lögsögu yfir hafsvæðum sem spanna hundruð þúsunda ferkílómetra. Þegar heilu ríkin sökkva í sæ eða verða óbyggileg tapast svo allt tilkall til hafsvæða og þau hætta jafnvel að vera til. Slík endalok eru ekki eins fjarlæg og margir gætu ætlað því hæsti punktur Maldíveyja er til dæmis 2.4 metrar.

Á vegum alþjóðlegra samtaka lögfræðinga (International Law Association) hefur verið skipuð nefnd til að fara yfir álitamál tengd þjóðarétti og hækkun sjávarmáls. Á Snjólaug sæti í nefndinni og nýlega setti Alþjóðalagaráð Sameinuðu þjóðanna sama málefni á dagskrá. Uppi eru m.a. hugmyndir um að breyta reglum Hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna til að frysta mörk í hafi og koma þannig í veg fyrir að berskjölduð ríki missi hafsvæði á meðan þau berjast við önnur áhrif loftslagsbreytinga. Slíkar breytingar eru kannski réttlætanlegar með vísan til loftslagsréttlætis (e. climate justice) en samantekin ráð um að víkja frá reglum Hafréttarsamningsins (án formlegra breytinga) gætu þó grafið undan samningnum og þannig ógnað undirstöðum þjóðaréttarins.

Snjólaug lauk grunn- og meistaranámi í lögfræði frá HR og lærði hafrétt á síðustu önn meistaranámsins sem skiptinemi í Gautaborg. Hún segir að þá hafi ekki verið aftur snúið og þaðan lá leiðin beint á sumarnámskeið Ródos-akademínunnar í hafrétti og þaðan í doktorsnám í lögfræði við Edinborgarháskóla. Greinar hennar hafa verið birtar í virtum fagtímaritum og verið á lista Friðarhallarinnar í Haag yfir leiðandi verk í hafrétti. Einnig hefur hún flutt erindi víða, m.a. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í samráðsferli um málefni hafsins.