Fréttir eftir árum


Fréttir

Hannaði burðarvirki brúar í starfsnámi

8.12.2017

Fyrir stuttu var reist brú á Hvammstanga, á milli grunnskóla bæjarins og leikskólans. Aron Sölvi Ingason á heiðurinn af hönnun stærða límtrésbita, stífingu fyrir brúna og stálfestinga. Hann er nemi í byggingartæknifræði og brúarhönnunin var verkefni hans í starfsnámi hjá Límtré Vírnet en viðamikið starfsnám er skyldufag í BSc-námi í byggingartæknifræði við Háskólann í Reykjavík. Brúna hannaði Arnar Birgir Ólafsson landslagsarkitekt hjá Teiknistofu Norðurlands en um smíði og uppsetningu sá Límtré Vírnet.

23004818_10213868774009625_2386821471587323940_oBrúnni komið fyrir á réttan stað.

Öðruvísi álag

Aron segir hönnun brúarinnar hafa verið skemmtilegt verkefni þó það hafi verið krefjandi. „Þetta verkefni var þó frekar óvenjulegt þar sem um er að ræða yfirbyggða brú sem á að vera hægt að keyra yfir, á til dæmis sláttuvélum eða snjóruðningstækjum, svo álagið var mikið og öðruvísi heldur en ég hafði áður unnið með. Brúin breyttist mjög oft, það var verið að lengja hana og breyta breiddinni á henni sem varð til þess að það þurfti að hanna marga parta af henni oftar en einu sinni.“

23668777_10213976415540596_2127128564299609015_oFerð til Hvammstanga á dagskrá

Aron er nýbúinn að skila lokaverkefninu sínu og er að klára BSc-námið í byggingartæknifræði. Brúarhönnunin er gott dæmi um hversu mikið nemendur læra af raunverulegum verkefnum. „Ég lærði enn betur að skilgreina álag á óvenjuleg mannvirki ásamt því að auka þekkingu mína almennt á burðarþolshönnun.“ Þess má geta að lokum að Aron hefur enn ekki gengið yfir brúna á Hvammstanga. „Ég á það eftir en ég stefni að því að gera á næstunni.“

Aron Sölvi Ingason