Fréttir eftir árum


Fréttir

Háskólagarðar HR teknir í notkun

23.11.2020

Fyrsti áfangi nýrra Háskólagarða HR hefur verið tekinn í notkun. Fyrstu íbúarnir fluttu inn í ágúst síðastliðnum. Í þessum fyrsta áfanga eru alls 122 leigueiningar, fullbúin einstaklingsherbergi, einstaklingsíbúðir, paraíbúðir og fjölskylduíbúðir.

Uppbygging Háskólagarðanna fer fram í fjórum áföngum. Fyrsta skóflustungan var tekin í september 2018 af Eygló M. Björnsdóttur, þáverandi formanni Stúdentafélags HR, Ara Kristni Jónssyni, rektor HR, Degi B. Eggertssyni, borgarstjóri í Reykjavík og Lilju D. Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra. 

Mynd af eldhúsi

Áætlanir standast

 

Framkvæmdir hafa gengið vel og staðist tíma- og fjárhagsáætlanir. Bygging annars áfanga sem er sambærilegt húss með 130 útleigueiningum fyrir nemendur og þremur íbúðum fyrir kennara, er langt á veg komin. Miðað er við að það hús verði tilbúið til útleigu skólaárið 2021-2022 og sem stendur er verkið á undan áætlun.

Alls er gert er ráð fyrir byggingu 390 íbúða á lóðinni, fyrir nemendur að stærstum hluta en einnig til leigu og tímabundinnar búsetu fyrir starfsfólk HR og starfsfólk fyrirtækja sem starfa innan HR og önnur þekkingarfyrirtæki sem tengjast háskólanum. Gert er ráð fyrir þjónustukjarna á síðasta reitnum samkvæmt deiliskipulagi. 

Byggingafélag námsmanna, BN, hefur umsjón með útleigu herbergja og íbúða og almennum rekstri Háskólagarðanna. Kanon arkitektar hönnuðu byggingarnar og Jáverk hefur séð um framkvæmdirnar.

Frekari upplýsingar um Háskólagarða

Háskólagarðar HR eru að rísa við HR.