Fréttir eftir árum


Fréttir

Háskólagarðar HR við Öskjuhlíðina opnaðir formlega

15.9.2021

Rúmlega 250 íbúðir og herbergi fyrir nemendur Háskólans í Reykjavík voru formlega tekin í notkun við Nauthólsveg í dag. 

Af því tilefni var íbúum boðið upp á kaffi og með því. Ragnhildur Helgadóttir, rektor; Selma Rún Friðjónsdóttir, varaforseti Stúdentafélags HR; Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra gróðursettu tré að viðstöddum íbúum, starfsfólki HR, stjórn HR og framkvæmdaráði, fulltrúum verktaka, arkitektum og fleirum.

Eykur aðgengi allra að námi

Ragnhildur Helgadóttir, rektor HR sagði við athöfnina að það væri mikið gleðiefni að geta loksins opnað garðana formlega. „Það skiptir miklu, meðal annars upp á aðgengi nemenda af landsbyggðinni og erlendis frá að HR, að unnt sé að bjóða upp á hagkvæmar leiguíbúðir. Það er líka lykilatriði fyrir margt fjölskyldufólk í námi og í samræmi við stefnu háskólans. Um leið og ég óska íbúum til hamingju með nýja heimilið, vil ég þakka stúdentum fyrir drifið, ríki og Reykjavíkurborg fyrir að gera þetta mögulegt og Kanon arkitektum og Jáverki fyrir húsin sjálf.“

Það viðraði vel til gróðursetningar í dag: Hér eru frá vinstri Ragnhildur Helgadóttir, rektor HR, Selma Rún Friðjónsdóttir, varaforseti Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. 

Góður dagur fyrir nemendur

Selma Rún Friðjónsdóttir, varaforseti Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík sagði að nemendur væru gríðarlega ánægðir með þessa aðstöðu sem HR hafi nú upp á að bjóða. „Það hefur verið mikil þörf á þessum íbúðum til margra ára. Þetta er því mikilvægt skref í rétta átt fyrir hagsmuni nemenda og gaman að sjá þetta verða að veruleika. Í dag er góður dagur fyrir núverandi og framtíðarnemendur Háskólans í Reykjavík,“ sagði hún.

Allt eftir áætlun

Gert er ráð fyrir að uppbygging Háskólagarðanna fari fram í fjórum áföngum: í tveimur fyrstu áföngunum, sem opnaðir voru formlega í dag, eru alls 72 fullbúin einstaklingsherbergi, 78 einstaklingsíbúðir, 78 tveggja herbergja paraíbúðir, 24 þriggja herbergja fjölskylduíbúðir, auk sex íbúða fyrir starfsfólk og samstarfsaðila. 

Áætlanir gera ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu Háskólagarða HR á Nauthólsvegi 87 næsta sumar, eftir flutning leikskóla Hjallastefnunnar. Alls er gert er ráð fyrir byggingu 390 íbúða á lóðinni, fyrir nemendur að stærstum hluta en einnig til leigu og tímabundinnar búsetu fyrir starfsfólk HR og samstarfsaðila háskólans, auk þjónustukjarna samkvæmt deiliskipulagi.

Fyrsta skóflustungan að Háskólagörðum HR var tekin í september 2018. Framkvæmdir hafa gengið vel og staðist tíma- og fjárhagsáætlanir.

Hagkvæmar leiguíbúðir

Kanon arkitektar hönnuðu byggingarnar og Jáverk sá um framkvæmdirnar. Heildarkostnaður við fyrstu tvo áfangana nemur tæpum sex milljörðum króna. Um er að ræða hagkvæmar leiguíbúðir samkvæmt reglum Íbúðalánasjóðs sem veitir stofnframlag til byggingarinnar sem nemur 22% af byggingakostnaði. Auk þess leggur Reykjavíkurborg fram stofnframlag sem nemur lóðagjaldi og gatnagerðargjöldum. 

Aðstaða í Háskólagörðum

Í kjallara Háskólagarðanna eru sameiginleg þvottahús, geymslur og vagna- og hjólageymsla og í sameiginlegum húsgarði eru hjólaskýli, grill og aðstaða til íþróttaiðkunar. Tólf einstaklingsherbergi á hverri hæð deila með sér fullbúnu eldhúsi. Geymslur fylgja öllum íbúðum og geymsluskápar herbergjum. Rafmagn, hiti og net er innifalið í leiguverði. Byggingafélagnámsmanna, BN, hefur umsjón með útleigu herbergja og íbúða og almennum rekstri Háskólagarðanna.