Fréttir eftir árum


Fréttir

Háskólanemar við HR opna frumkvöðlasetrið Seres

8.3.2019

Nemendur við Háskólann í Reykjavík (HR) opnuðu í dag nýtt frumkvöðlasetur HR í Nauthólsvík sem hlotið hefur nafnið Seres. Í Seres - frumkvöðlasetri HR er sérhönnuð aðstaða fyrir núverandi og útskrifaða HR-inga til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd.

Frumkvodlasetur-opnun.wFjölmenni var við opnun Seres – frumkvöðlasetur HR / Mynd: Golli 

Seres – frumkvöðlasetur HR, er í nýuppgerðri viðbyggingu við Braggann í Nauthólsvík. Nýsköpunar- og frumkvöðlanefnd Háskólans í Reykjavík, sem er skipuð fimm nemendum af mismunandi brautum háskólans, hefur haft veg og vanda af undirbúningi starfsemi Seresar, með stuðningi sérfræðinga HR. Frumkvöðlasetrið er ætlað núverandi og útskrifuðum nemendum HR sem vilja ýta góðum nýsköpunarhugmyndum úr vör. Þeir fá vinnuaðstöðu í Seres og njóta leiðsagnar og fyrirlestra sérfræðinga úr háskólanum og atvinnulífinu í nýsköpunarferlinu. Allt að 25 manns geta nýtt aðstöðuna á hverjum tíma og einstök frumkvöðlaverkefni geta notað aðstöðuna í allt að eitt ár. Starfsemi sambærilegra setra innan háskóla hefur víða reynst vel en margir af virtustu háskólum í heimi reka nýsköpunar- og frumkvöðlasetur. Gert er ráð fyrir að fyrstu hóparnir fái aðgang að Seres í byrjun maí en opnað hefur verið fyrir umsóknir.

Seres – frumkvöðlasetur HR / Mynd: Golli Frá stofnun Háskólans í Reykjavík hefur verið lögð rík áhersla á frumkvöðlahugsun og nýsköpun í námin. Það má t.d. nefna að flestir nemendur í grunnnámi taka námskeiðið "Nýsköpun og stofnun fyrirtækja", en í því læra þeir að hrinda eigin nýsköpunarhugmyndum í framkvæmd. Í meistaranámi við HR býðst nemendum að leggja sérstaka áherslu á frumkvöðlahugsun og nýsköpun. Enn fremur hefur háskólinn stutt við sprotafyrirtæki nemenda á ýmsa vegu, auk þess að styðja við Icelandic Startups, Nýsköpunarkeppni grunnskólanna og margt fleira. Þessi áhersla á nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi hefur meðal annars skilað sér í því að stór hluti útskriftarnema hefur hug á að stofna sitt eigið fyrirtæki.

Fallegt útsýni er frá Frumkvöðlasetrinu yfir Nauthólsvík. / Mynd: Golli Nafnið Seres er komið úr stjörnufræði en Seres er stærsa smástirnið í smástirnabeltinu á milli Mars og Júpíters. Nafnið fellur því vel að nafngiftahefð HR en einstakir hlutar byggingar háskólans eru nefndir eftir reikistjörnum sólkerfisins og öðrum fyrirbærum úr stjörnufræði. Seres er einnig nafn rómverskrar gyðju akuryrkju og frjósemi og frumefnið Cerium er nefnt eftir smástirninu.

Nánari upplýsingar um Seres – frumkvöðlasetur HR og umsóknarferlið er að finna á vefsíðunni: hr.is/seres