Fréttir eftir árum


Fréttir

Háskólar landsins skora á stjórnvöld að hækka framlög

7.10.2016

Allir rektorar háskólanna á Íslandi hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu til stjórnvalda. Þar er skorað á þau að veita meira fjármagni til starfsemi efsta skólastigsins.

Yfirlýsingin er á þessa leið:

„Við undirrituð, rektorar allra háskóla á Íslandi, lýsum þungum áhyggjum af málefnum háskóla landsins. Fjármálaáætlun hins opinbera fyrir árin 2017–2021 gerir ráð fyrir heildarútgjaldaaukningu til uppbyggingar ýmissa innviða samfélagsins - en skilur háskólana eftir.

Úttektir Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) sýna að íslenskir háskólar eru verulega undirfjármagnaðir og fá helmingi lægra framlag á hvern nemanda en háskólar annars staðar á Norðurlöndum.

Háskólar eru ómissandi fyrir þróun íslensks samfélags. Þeir búa ungt fólk undir þátttöku í atvinnulífi og samfélagi og gera því kleift að hafa frumkvæði og áhrif til farsældar fyrir þjóðfélagið allt.Við fullyrðum að áframhaldandi undirfjármögnun háskólastigsins mun hafa verulega neikvæð áhrif á háskólanám, rannsóknir, menningarstarf og nýsköpun og þar með samfélagsþróun og samkeppnishæfni Íslands til framtíðar.

Við óbreytt ástand geta háskólarnir ekki starfað áfram með eðlilegum hætti. Háskólastarfi á landinu er stefnt í hættu. Við skorum því á stjórnmálamenn, sem nú bjóða sig fram til Alþingis, að láta verkin tala. Fjárfesting í háskólum er fjárfesting í velsæld, atvinnutækifærum og í framtíðinni.“

Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík
Björn Þorsteinsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands
Erla Björk Örnólfsdóttir, rektor Háskólans á Hólum
Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri
Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands
Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst

Sjá skilaboð frá rektor HR, kennurum og nemendum vegna áskorunarinnar #háskólaríhættu:

https://www.youtube.com/watch?v=nS-Zifs2ETE