Háskólinn í Reykjavík einn af bestu ungu háskólum heims
HR í 53. sæti á nýbirtum lista tímaritsins THE
Háskólinn í Reykjavík er í 53. sæti á nýbirtum lista tímaritsins Times Higher Education yfir bestu ungu háskóla heims (Young Universities Ranking). Á listanum eru horft til 750 háskóla sem hafa starfa í 50 ár eða skemur.
Þessi árangur þykir einkar góður, sérstaklega þegar litið er til þess að Háskólinn í Reykjavík hefur aðeins starfað í 24 ár og hefur jafnt og þétt hækkað á listanum.
Listi Times Higher Education byggir á mati á þrettán lykilþáttum háskólastarfs, svo sem á gæðum kennslu og rannsókna, fjölda tilvitnana í vísindagreinar eftir starfsfólk háskólans, alþjóðlegum tengslum og samstarfi við atvinnulífið. Mælikvarðarnir eru þeir sömu og notaðir eru þegar háskólar eru metnir á aðallista Times Higher Education en þegar kemur að ungu háskólunum er dregið úr vægi orðspors og meiri áhersla lögð á kennslu, rannsóknir, hagnýtingu rannsókna og alþjóðavæðingu.
Hér er hægt að lesa um aðferðina sem notuð er til að meta stöðu háskóla á listanum.