Fréttir eftir árum


Fréttir

Háskólinn í Reykjavík fær góða dóma í gæðaúttekt

8.10.2019

Gæðaráð íslenskra háskóla birti nýverið niðurstöður gæðaúttektar á Háskólanum í Reykjavík. Helstu niðurstöður eru þær að háskólinn vinni samkvæmt skýrri stefnu sem taki mið af þörfum íslensks samfélags til framtíðar, bjóði upp á námsframboð sem henti nemendum og íslensku atvinnulífi og góður og hvetjandi starfsandi sé ríkjandi meðal nemenda og starfsfólks. Skýrslu um úttektina má nálgast á vef Rannís.

Sólin í Háskólanum í Reykjavík

Í skýrslunni er m.a. fjallað er um árangur frá síðustu úttekt sem gerð var árið 2012, gæði prófgráða, upplifun nemenda af náminu, rannsóknir og umbótastarf. Meginniðurstaða skýrslunnar er að starf HR sé í samræmi við viðeigandi evrópska gæðastaðla (Standards and guidelines for quality assurance in the European Higher Education Area, ESG) og að nefndin beri traust til háskólans varðandi gæði prófgráða og upplifun nemenda af námi og kennslu.

Í samantekt nefndarinnar segir m.a. 

Almennt upplifði nefndin háskóla sem skarar fram úr með skýrri stefnu, stöðugri framþróun, frábærri aðstöðu, menningu og starfsaðferðum.

Nefndin er skipuð fimm erlendum sérfræðingum og íslenskum nemanda. Skýrslan byggir á heimsókn sérfræðinganefndarinnar til háskólans í maí síðastliðnum, þar sem tekin voru viðtöl við núverandi og fyrrverandi nemendur háskólans, starfsmenn, stundakennara, rektor, yfirstjórn og stjórn og á sjálfsmatsskýrslu sem háskólinn skilaði í febrúar síðastliðnum.

Árangur frá síðustu úttekt
Fram kemur að meðal markmiða háskólans eftir síðustu úttekt, sem fór fram árið 2018, hafi verið að auka hlut nemenda í stjórnun háskólans, endurnýja skipulag og reglur, uppfæra námsmarkmið og námsmat og taka í notkun ný upplýsingatæknikerfi. Nefndin telur að verulegur árangur hafi náðst frá síðustu úttekt.

Gæði prófgráða
Í umfjöllun um gæði prófgráða segir að lögð sé áhersla á gæði námsins í stefnu og markmiðum háskólans. Námið sé greinilega skipulagt í takti við þarfir íslensks atvinnulífs til skemmri og lengri tíma og horft sé til þess að menntunin geri nemendum kleift að taka þátt í atvinnumarkaðinum að námi loknu, m.a. með því að skapa ný störf. Gæði námsgráða séu tryggð með viðeigandi reglum og ferlum sem sé vel fylgt af starfsfólki. Lærdómsviðmið séu skilgreind fyrir allar námsleiðir og þau séu tengd námsmati. Niðurstaða nefndarinnar er traust til gæði prófgráða háskólans.

Upplifun nemenda af námi og kennslu
Skýrsluhöfundar segja að HR vinni að því að upplifun nemenda af námi og kennslu sé góð með því að leggja áherslu á gæði í öllu starfi háskólans, með þarfir nemenda að leiðarljósi og með framúrskarandi námsaðstöðu. Starfsfólk láti sig árangur nemenda miklu varða og nemendur séu mjög ánægðir með námið, starfsfólk og háskólann yfirleitt. Niðurstaða nefndarinnar er traust til háskólans varðandi upplifun nemenda af námi og kennslu.

Rannsóknir
Í skýrslunni er HR sagður starfa samkvæmt skýrri stefnu og vera með skýra stjórnunarferla fyrir rannsóknir. Áhersla sé lögð á alþjóðlegt samstarf og í gæðakerfi séu notaðir alþjóðlegar viðmiðanir. Árangurinn komi meðal annars fram í utanaðkomandi vottunum og röðunum á alþjóðlegum listum svo og með mikilli fjölgun ritrýndra birtinga vísindamanna háskólans.

Umbótastarf
Stöðugar umbætur eru samofnar menningu, stefnu og vinnu HR, samkvæmt skýrslunni. Stefna sé skýr og mörkuð í samhengi við þarfir íslensks samfélags. Hún sé sveigjanleg og leggi áherslu á þarfir nemenda. Unnið sé að breytingum á skipulagi háskólans sem hafi mælst vel fyrir hjá bæði nemendum og starfsfólki.

Tækifæri til úrbóta
Nefndin bendir einnig á tækifæri til úrbóta á ýmsum sviðum og leggur áherslu á að yfirstandandi skipulagsbreytingar og stefnumótunarvinna verði nýttar við þróun gæðakerfis háskólans. Einnig er lagt til að vinnu við endurnýjun á nemendaskráningarkerfi verði flýtt eins og kostur er. Þá er er bent á að auka mætti samstarf á milli íslenskra háskóla við umsóknir um alþjóðlega rannsóknastyrki.