Fréttir eftir árum


Fréttir

Háskólinn í Reykjavík heldur sæti 301-350 á nýjum allsherjarlista THE

Listinn byggir m.a. á mati á kennslu, rannsóknum, alþjóðastarfi og samstarfi við atvinnulífið

14.10.2022

Á nýjum lista Times Higher Education (THE) yfir bestu háskóla heims fyrir árið 2023 er Háskólinn í Reykjavík áfram efstur íslenskra háskóla og heldur stöðu sinni í sæti 301-350. Þá er HR enn meðal allra efstu skóla er kemur að mati á hlutfallslegum áhrifum rannsókna, fjórða árið í röð í sjöunda sæti tæplega 1800 háskóla. Áhrif rannsókna eru metin út frá fjölda tilvitnana í vísindagreinar, það er, hversu oft aðrir vísindamenn vitna í niðurstöður fræðimanna háskólans í ritrýndum vísindagreinum.

Háskólinn í Reykjavík

 

Við erum afskaplega glöð og stolt af þessu. Síðustu ár hafa reynt á alla háskóla, en við höldum okkar sæti og erum í efstu 20% þeirra háskóla sem undirgangast matið. Heiðurinn af þessu er starfsfólks og nemenda, en það er gleðiefni fyrir alla, að íslenskir háskólar skuli vera jafn sterkir í alþjóðlegum samanburði og raun ber vitni.

segir Ragnhildur Helgadóttir rektor Háskólans í Reykjavík.

Listi Times Higher Education yfir bestu háskóla heims er einn virtasti slíkur listi sem gefinn er út og til hans er mikið horft við mat á alþjóðlegu háskólastarfi. Hann byggir m.a. á mati á kennslu, rannsóknum, alþjóðastarfi og samstarfi við atvinnulífið. Áhrif rannsókna eru metin út frá upplýsingum frá Elsevier um rúmlega 108 milljón tilvitnanir í 14,4 milljón ritrýndar fræðigreinar, yfirlitsgreinar, bækur, bókakafla og ráðstefnurit, sem gefin hafa verið út síðustu fimm árin. Í einkunnagjöf THE fyrir tilvitnanir er jafnframt tekið tillit til fjölda starfsmanna við háskóla, mismunar á útgáfutíðni milli fræðigreina og fleiri slíkra atriða.