Fréttir eftir árum


Fréttir

Háskólinn í Reykjavík tekur þátt í evrópsku háskólaneti (European University Alliance) um rannsóknir í tækni- og taugarannsóknum

Mikilvæg lyftistöng fyrir íslenskt rannsóknasamfélag

3.3.2022

Háskólinn í Reykjavík tilkynnti í dag um þátttöku í NeurotechEU, framsæknu samstarfi nokkurra fremstu háskóla Evrópu þar sem byggt verður upp öndvegisnet í tækni- og taugarannsóknum (e. neurotechnology) með það að markmiði að auka samkeppnishæfni evrópskrar menntunar, rannsókna, atvinnulífs og samfélags.

Þátttakan í þessu samstarfi verður lyftistöng fyrir hið gróskumikla rannsóknarstarf sem stundað er innan háskólans og um leið íslenskt rannsóknasamfélag í heild,

segir Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík en meðal háskóla sem taka þátt í NeurotechEU eru Karolinska Institutet, Oxford háskóla og Radboud University í Hollandi.

 

Innan Háskólans í Reykjavík er unnið ríkulegt rannsóknarstarf á sviði taugavísinda og tækni.

Það skiptir máli fyrir minni háskóla að vera í nánu samstarfi við aðra og þróa nám, kennslu, innra starf og rannsóknir í samvinnu við og með hliðsjón af því sem best gerist erlendis,

segir Ragnhildur en NeurotechEU er vettvangur öflugs samstarfs háskóla, bæði á sviði kennslu og rannsókna, og mun vísindafólk innan háskólanna einnig geta sótt í rannsóknarsjóði sem þegar eru fyrir hendi.

Á næstu misserum verður Neurotech einnig alþjóðlegur vettvangur fyrir nemendur þar sem þeim býðst að stunda sameiginlegt meistara- og doktorsnám þvert á háskóla.

Hér má lesa meira um Evrópska háskólanetið.