Fréttir eftir árum


Fréttir

Háskólinn í Reykjavík tekur þátt í samstarfi um rannsóknir og þróun á bálkakeðjum

28.4.2021

Háskólinn í Reykjavík hefur gerst meðlimur í rannsókna- og þróunarsamstarfi yfir þrjátíu og fimm háskóla um allan heim, sem leitt er af Ripple, leiðandi fyrirtæki á notkun bálkakeðja í fjártækni, rafmyntum og stafrænni greiðslumiðlun. Markmið samstarfsins er að nota bálkakeðjur til að þróa nýjar lausnir í fjártækni.

Háskólarnir stunda sjálfstæðar rannsóknir á sínum sérsviðum en njóta tæknilegs og fjárhagslegs stuðnings Ripple, í gegnum UBRI samstarfið sem komið var á fót árið 2018 til að efla kennslu, rannsóknir, þróun og samstarf á sviði bálkakeðja. 280 rannsóknarverkefni og 161 háskólanámskeið í 18 löndum hafa notið góðs af samstarfinu til þessa.

Gísli Hjálmtýsson, forseti tæknisviðs HR segir að UBRI samstarfið muni gera vísindafólki við tæknisvið HR kleift að efla rannsóknir og þróun á sviði bálkakeðja, rafmynta, fjártækni og stafrænnar greiðslumiðlunar. Unnið verði náið með Ripple Íslandi. “Við erum mjög ánægð með þetta samstarf sem er í takti við áherslur háskólans á að tengja saman fræðilegar rannsóknir og atvinnulífið. Það mun nýtast okkur vel til að halda áfram að rannsaka og prófa þá tækni sem við höfum verið að þróa á sviði fjártækni, í raunverlegu umhverfi á Ripple bálkakeðjunni.”