Fréttir eftir árum


Fréttir

Hefja viðamikla rannsókn á geðheilsu Íslendinga

6.2.2019

Vísindamenn við sálfræðisvið Háskólans í Reykjavík hófu nýlega viðamikla langtíma rannsókn á geðheilsu karla og kvenna á Íslandi. Það eru dr. Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, dósent og sviðsstjóri sálfræðisviðs HR, dr. Rannveig S. Sigurvinsdóttir, lektor við sálfræðisvið, Þóra Sigfríður Einarsdóttir, doktorsnemi við sviðið, ásamt Söruh E. Ullman, prófessor í afbrotafræði og sálfræði við Háskólann í Illinois, sem standa að rannsókninni.

Verndari hennar er Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Í rannsókninni verður áhersla lögð á samspil geðheilsu, lífsánægju, félagslegs stuðnings, streitu og áfalla og skoðað hvernig félagslegur stuðningur getur gagnast sem best við streituvaldandi aðstæður og áföll.

Rannsóknin er til langs tíma og verður gerð aftur að einu og tveimur árum liðnum. Bréf verður sent til einstaklinga sem koma upp í tilviljunarúrtaki 18-80 ára úr Þjóðskrá.

Hér er hægt að lesa um rannsóknina 

Bryndís Björk Ásgeirsdóttir mætti í Kastljós RÚV síðastliðinn mánudag ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands.

Myndin sýnir viðmælendur í sjónvarpiSmellið hér til að sjá viðtalið