Fréttir eftir árum


Fréttir

Helgi Þór er nýr rannsóknarstjóri IPMA

19.12.2016

Helgi Þór Ingason, prófessor við tækni- og verkfræðideild HR og forstöðumaður meistaranáms í verkefnastjórnun, MPM, var nýlega skipaður rannsóknarstjóri IPMA, alþjóðlegu verkefnastjórnunarsamtakannna. IPMA eru regnhlífasamtök 60 landssamtaka úr öllum heimshornum á sviði verkefnastjórnunar og meðal meðlima eru íslensku samtökin um verkefnastjórnun, VSF. Það er tilgangur IPMA að skilgreina verkefnastjórnun sem fag, halda utan um hugtakagrunna, þróa staðla, standa fyrir heimsráðstefnum og standa fyrir vottun verkefnastjóra sem meðal annars er notuð hér á landi.

Helgi Þór IngasonHelgi Þór hefur setið í rannsóknaráði IPMA, Research Management Board, frá árinu 2013. Hann segir nýtt hlutverk rannsóknarstjóra innan samtakanna koma í kjölfar skipulagsbreytinga og að það veiti honum gott tækifæri til að koma ýmsum málum á dagskrá en hann mun sinna starfinu næstu tvö árin. „Það verður á minni könnu að upplýsa samtökin um rannsóknir í faginu, samræma rannsóknir á vegum IPMA og hafa yfirsýn yfir rannsóknarumsvif.“ Eins og sönnum verkefnastjóra sæmir er Helgi Þór búinn að setja niður áætlun til næstu tveggja ára sem hann vill fylgja eftir. 

Verkefnastjórnun og sjálfbærni

Meðal viðfangsefna rannsóknaráðs hefur verið að veita verðlaun til vísindamanna fyrir rannsóknir á sviði verkefnastjórnunar auk þess að halda árlega ráðstefnu sem hefur ákveðið þema. Helgi Þór segir síðustu ráðstefnu, sem einmitt var haldin í Reykjavík, hafa tekist vel. „Þemað síðast var verkefnastjórnun og sjálfbærni. Ég hef mikinn áhuga á þessu sviði og mig langar til að hafa það í forgrunni í minni vinnu sem rannsóknarstjóri. Ég tel að fagið geti lagt virkilega margt af mörkum, það er hægt að aðlaga alla staðla og hugtakagrunna út frá hugmyndum um sjálfbærni svo að öll fagleg verkefnastjórnun, sem er að ryðja sér æ meira rúms í allri stjórnun í dag, taki mið af því að draga sem mest úr skaðlegum áhrif manna á náttúruna.“ Auk þess haldi IPMA úti ákveðnu mælitæki fyrir afburðaverkefni í formi verðlauna. Safnast hafi mikið af gögnum um afburðaverkefni í áranna rás og þetta megi nota í rannsóknum og efla þekkingu á ýmsum árangursþáttum í stjórnun verkefna. „Mig langar að kynna þessi verðlaun til sögunnar hér á landi, og ég held að þetta gæti hjálpað til við vitundarvakningu í verkefnastjórnun á Íslandi.“

Nemendur í meistaranámi í verkefnastjórnun standa fyrir framan töflu sem einn nemandi er að skrifa á

Nemendur í meistaranámi í verkefnastjórnun við HR í tíma.

Góð verkefnastjórnun mikið hagsmunamál

Verkefnastjórnun sem stjórnunaraðferð og fræðasvið er að mati Helga Þórs að öðlast stærri sess í nútíma þjóðfélagi. „Auknar vinsældir faglegrar verkefnastjórnunar koma ekki á óvart enda kemur þessi færni og þekking inn á alla vinkla þjóðfélagsins. Til dæmis; hversu stór hluti útgjalda íslenska ríkisins eru til verkefna af einhverju tagi? Býsna stór hluti. Er þá ekki mikið hagsmunamál að þeim sé stýrt vel og að áætlanir standist?“ Það hefur verið starf Helga Þórs og jafnframt áhugamál um árabil að gera verkefnastjórnun hátt undir höfði í íslensku atvinnulífi. „Það má því segja að það sé jákvætt fyrir fagið hér á landi að Íslendingur sé í stöðu rannsóknarstjóra IPMA. Ég lít því á þetta sem gott tækifæri fyrir bæði mig persónulega og íslenska verkefnastjórnun.“

Fara á vef MPM-námsins við HR