Fréttir eftir árum


Fréttir

Hlaut heiðursviðurkenningu alþjóðasamtaka verkefnastjórnunarfélaga

6.6.2019

Þann 17. maí síðastliðinn hlaut dr. Helgi Þór Ingason, prófessor við verkfræðideild og forstöðumaður MPM-námsins, heiðursviðurkenningu frá IPMA - Alþjóðasamtökum verkefnastjórnunarfélaga.

Helgi Þór er annar upphafsmanna MPM-námsins við Háskólann í Reykjavík, leiðandi kennari og helsti umsjónarmaður þess, ásamt dr. Hauki Inga Jónassyni.

Helgi-Thor-vidurkenningDr. Helgi Þór Ingason.

Viðurkenninguna hlaut Helgi Þór fyrir ötult og mikilvægt starf sitt innan IPMA í þágu rannsókna í verkefnastjórnun. Árið 2013 var Helgi Þór valinn til setu í rannsóknaráði IPMA og á árunum 2016-2018 var hann rannsóknastjóri samtakanna.

Það var Þór Hauksson, formaður Verkefnastjórnunarfélags Íslands, sem afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn í Háskólanum í Reykjavík á Degi verkefnastjórnunar.

Með því besta

Meistaranám í verkefnastjórnun, MPM, er tveggja ára nám sem er stundað með vinnu. Í faglegri verkefnastjórnun er blandað saman hugvísindum, félagsvísindum, viðskiptafræði, verkfræði og raunvísindum og sívaxandi eftirspurn er eftir fagfólki á þessu sviði, í flestum greinum atvinnulífsins. MPM-námið var sett á fót haustið 2005 að frumkvæði Helga Þórs og Hauks Inga. Hönnun námsins tók mið af faglegum hæfniviðmiðum IPMA, breska Verkefnastjórnunarfélagsins (APM) og bandarísku Verkefnastjórnunarstofnunarinnar (PMI).

Samkvæmt nýlegri úttekt APM er MPM-nám Háskólans í Reykjavík dæmi um það allra besta sem í boði er á heimsvísu á sviði verkefnastjórnunar (e. best practice). Námið hefur í tvígang hlotið vottun APM með þessari umsögn, fyrst fyrir þremur árum og svo aftur síðasta vor. Í úttektinni er aðstandendum námsins hrósað fyrir að slaka hvergi á í faglegum kröfum um leið og námið væri í stöðugri framþróun og hefði sem fyrr mjög jákvæð áhrif í íslensku samfélagi.