Fréttir eftir árum


Fréttir

Hljóta 50 milljóna króna styrk frá ESB til rannsókna í ákvörðunarfræðum

11.10.2017

Tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík í gegnum CORDA, rannsóknasetur í ákvörðunar- og áhættufræðum, tekur nú þátt í Evrópuverkefninu D'Ahoy ásamt nokkrum öðrum evrópskum háskólum og menntastofnunum.

Verkefnið hlaut 50 milljóna króna styrk (396.000 evrur) úr ERASMUS+ rannsóknaáætlun Evrópusambandsins og var formlega ýtt úr vör dagana 9-10. október sl. í Glasgow, Skotlandi. Það voru dr. Þórður Víkingur Friðgeirsson, forstöðumaður CORDA, og dr. Haraldur Auðunsson, sviðsstjóri heilbrigðissviðs og skipuleggjandi Hamfaradaga, sem sóttu fundinn fyrir hönd HR. Fjöldi annarra starfsmanna HR mun koma að verkefninu á næstu árum. Það getur orðið lyftistöng undir rannsóknir á sviði ákvörðunar- og áhættufræða auk þess að þróa námskeið og kennsluaðferðir fyrir framtíðina.

Um ákvörðunarfræði

Ákvörðunarfræði (e. decision analysis) er fræðigrein sem upphaflega byggði á að nota formlegar aðferðir s.s. stærðfræði, tölfræði, bestun, hermun og jafnvel heimspeki til að komast að bestu mögulegu ákvörðun á grunni fyrirliggjandi upplýsinga. Í seinni tíð hefur áhugi margra sérfræðinga í ákvörðunarfræðum einnig beinst að því hvernig hugur okkar vinnur undir álagi þegar þarf að taka snöggar ákvarðanir og ekki gefst tóm til að nota formlegar aðferðir. Þegar lítið svigrúm er til að taka ákvarðanir ber að varast svokallaðar vitsmunaskekkjur (e. cognitive biases) sem kunna að villa um fyrir þeim sem taka ákvarðanir. Við tækni- og verkfræðideild HR hefur þessi fræðigrein verið kennd um árabil þar sem teflt er saman formlegum aðferðum til að taka ákvarðanir og hvernig skal taka tillit til og varast vitsmunaskekkjur við ákvörðunartöku.

Vandaðar ákvarðanir mikilvægar

Rannsóknarsetrið CORDA mun meðal annars fá það hlutverk að leggja til fræðilegar og hagnýtar forsendur ákvörðunarfræða innan spennandi nýs sviðs innan stjórnunarfræðanna sem kallast VUCA. VUCA er skammstöfun fyrir ensku orðin volatile, uncertain, complex og ambiguous. D'Ahoy og VUCA er meðal annars ætlað að vinna með vaxandi þörf fyrir vandaðar ákvarðanir á tímum hverfulleika, óvissu, flækju og tvíræðni.

Hópur fólks stendur fyrir framan byggingu og horfir í myndavélinaVerkefninu D'Ahoy ýtt úr vör í Skotlandi. Á myndinni má sjá frá tækni- og verkfræðideild HR þá Harald Auðunsson, annan frá vinstri, og Þórð Víking Friðgeirsson, sem stendur fremst á myndinni.

Evrópskt rannsóknarsamstarf

D'Ahoy er upphaflega hugmynd dr. Siegfried Rouvrais hjá franska háskólanum IMT Atlantique og er verkefninu ætlað að þróa kennslufræði og stunda rannsóknir á sviði ákvörðunarfræða næstu þrjú árin. Auk HR og IMT Atlantique taka þátt í D'Ahoy verkefninu franski herháskólinn Ecole Navale, spænski háskólinn Fundació Universitat-Empresa de les Illes Balears, City of Glasgow College, Scottish Credit and Qualifications Framework Partnership og Fondation des Régions Européennes pour la Recherche, l'Éducation et la Formation.