Fréttir eftir árum


Fréttir

Hlutu viðurkenningar fyrir verkefni um nýtingu rafstraums og sjálfvirknivæðingu

21.3.2019

Tveir nemendur við Háskólann í Reykjavík hlutu hvatningarviðurkenningar á Nýsköpunarmóti Álklasans sem haldið var nýlega í hátíðarsal Háskóla Íslands. Caroline Mary Medion, meistaranemi í orkuverkfræði við Íslenska orkuháskólann í HR, hlaut viðurkenningu fyrir rannsókn sína Improving Current Efficiency in L-T Aluminum Electrolysis with Vertical Inert Electrodes. Eymar Andri Birgisson, meistaranemi í vélaverkfræði, hlaut viðurkenningu fyrir verkefni sitt Sjálfvirknivæðing á kerviðgerðum með tölvusjón.

Verðlaunahafar standa í hátíðarsal HÍ Frá vinstri: Brjánn Jónsson faðir Diljár Hebu Petersen, Caroline Mary Medino, Eymar Andri Birgisson, Hinrik Már Rögnvaldsson.

Að auki hlutu nemendur Háskóla Íslands viðurkenningar fyrir verkefni sín, þau Diljá Heba Petersen fyrir verkefnið Endurnýtingarmöguleikar slaggs frá kísiljárnframleiðslu og Hinrik Már Rögnvaldsson fyrir Flokkunarmódel planaðrar áltöku.

Hugmyndagátt fyrir háskólanema

Guðbjörg Óskarsdóttir, framkvæmdarstjóri Álklasans, veitti viðurkenningar og vakti af því tilefni máls á hugmyndagátt á vef klasans, þar sem háskólanemar geta sótt hugmyndir að verkefnum. Að hvatningarviðurkenningunni standa fyrirtækin Mannvit, Efla, Hamar, Snókur, Rio Tinto, Alcoa Fjarðaál, Norðurál og Landsbankinn, en auk þess bjó Álverið í Garðabæ, sem sérhæfir sig í yfirborðsmeðhöndlun á áli, til álviðurkenningarskildi handa viðurkenningarhöfum.

Nýsköpunarmót Álklasans

Snjallvæðing, loftslagsmál og hringrásarhagkerfið voru ofarlega á baugi í þeim erindum sem flutt voru á mótinu og endurspegluðust þær áherslur í þeim nemendaverkefnum sem fengu viðurkenningu. Í kaffihléi gafst gestum færi á því að bera íslenska álbílinn Ísar augum en hann var frumsýndur á Nýsköpunarmóti Álklasans fyrir tveimur árum síðan og hefur nú tekið miklum breytingum.

Um álklasann

Álklasinn var stofnaður árið 2015 og stendur saman af um 40 fyrirtækjum og stofnunum í tengdum ál og kísiliðnaði. Þetta er í þriðja sinn sem Nýsköpunarmót Álklasans er haldið en að því standa Álklasinn, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samtök iðnaðarins og Samál.