Fréttir eftir árum


Forsíðufréttir

Íslensk fyrirtæki ekki tilbúin fyrir stafræna framtíð

26.8.2019

Íslensk fyrirtæki þurfa  að hugsa hlutina upp á nýtt og fyrirtæki á hinum Norðurlöndunum standa íslenskum fyrirtækjum framar í nýsköpun og stafrænum umskiptum. Þetta var meðal þess sem kom fram á hádegisfundi viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík og Félags viðskipta- og hagfræðinga, sem bar heitið Leadership and Digitalization, síðastliðinn fimmtudag.

Fyrirlesarar voru dr. Dimo Dimov, og dr. Karl Moore, stundakennarar í meistaranámi við viðskiptadeild HR. Auk þeirra tók Þórey Vilhjálmsdóttir, ráðgjafi hjá Capacent, sem jafnframt er stundakennari í Opna háskólanum, þátt í pallborðsumræðum. Fundarstjóri var Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Iceland Startups.

Það gerist ekkert í þægindarammanum

Fyrstur tók til máls dr. Dimo Dimov, en hann er prófessor í nýsköpun og frumkvöðlafræðum við Háskólann í Bath í Bretlandi og gestaprófessor við HR. Hann fór yfir atriði sem auðveldað gætu nýjan, „framtíðarvænan“ hugsunarhátt innan fyrirtækja og sagði möguleikana með stafrænni umbreytingu vera marga. „Í viðskiptum erum við vön að forðast mistök. Stjórnendur eru hræddir við að mistakast og allar ákvarðanir þurfa að vera réttlætanlegar og skipta máli. En í þægindarammanum geturðu ekki þróast áfram og í fjórðu iðnbyltingunni er svona hugsunarháttur úreltur. Maður getur einungis komist hjá því að gera mistök með því að gera aldrei neitt.“

Maður heldur ræðuDr. Dimo Dimov.

Í staðinn þurfi stjórnendur að efla fróðleiksfýsn starfsmanna og ímyndunarafl. „Þú verður að hugsa hlutina upp á nýtt, annars verðurðu undir í samkeppninni. Hvernig komum við í veg fyrir þennan ótta? „Það þarf alltaf að líta fram á veginn, gleyma því sem við höfum hingað til talið rétt eða rangt og hugsa, hvað er næst? Hvert getum við farið? Gerum hlutina bara til þess að gera þá, það er nýsköpunarhugsunin sem fyrirtæki þurfa að tileinka sér.“

Ekki miðaldra hvítir karlmenn lengur

Dr. Karl Moore er prófessor við McGill University í Quebec, Kanada, og Oxford háskóla í Bretlandi. Hann kennir jafnframt í meistaranámi við viðskiptadeild HR. Karl hefur síðastliðin ár átt í samtali við yfir 100 framkvæmdastjóra um hina stafrænu framtíð. Þau samtöl hafa verið lærdómsrík eins og hann lýsti í fyrirlestrinum. „Það fyrsta sem þú þarft að átta þig á er að allt er stafrænt. Þú talar ekki lengur um digital strategy, það er bara strategy enda er internetið og gervigreind orðinn hluti af rekstrinum.“ Hann sagði stjórnendur verða að breyta stjórnunarháttum sínum. „Þetta eru ekki miðaldra hvítir karlmenn lengur og við verðum að læra af yngri kynslóðum og virða þau meira, og sækjast eftir fjölbreytni í alvörunni, ekki bara með því að tékka í einhver box. Lærðu af unga fólkinu, því það er fólkið sem vill verða frumkvöðlar og í raun eyðilegga fyrirtækið þitt.“

Fólk stendur við pallborðSalóme Guðmundsdóttir, Dimo Dimov, Þórey Vilhjálmsdóttir og Karl Moore.

Forstjórar þurfa að kynnast viðskiptavininum

Í pallborðsumræðum undir stjórn Salóme Guðmundsdóttur voru meðal annars rædd skref sem fyrirtæki geta byrjað á að taka til að vera betur undirbúin fyrir stafrænan heim. Þórey Vilhjálmsdóttir sagði það vera forgangsatriði að breyta menningu fyrirtækja með því að leggja áherslu á samkennd og tilfinningagreind í vinnuferlum og gera sköpunargáfu starfsmanna hátt undir höfði. „Hvernig líður viðskiptavininum? Þetta er eitthvað sem stjórnendur þurfa að vita. Þeir þurfa að kynnast framlínustarfsmönnum og viðskiptavinum.“ Hún sagði það einnig mikilvægt að vera ekki í vörn gagnvart aldurshópum sem eru aldir upp í stafrænum heimi, eða digital natives, heldur læra af þeim. Hún sagðist jafnframt hafa skoðað 20 stór fyrirtæki hér á landi og að því miður séu þau ekki nógu vel undirbúin undir framtíðina. „Forstjórar margra fyrirtækja hér á landi líta því miður ekki á endurnýjun í starfseminni sem forgangsatriði í stefnumótun, sem er ekki nógu gott. Þeir vilja oft setja allt það sem heitir „stafrænt“ til upplýsingatæknideildarinnar. Þetta verður til þess að íslensk fyrirtæki munu mörg verða undir í samkeppninni og við erum strax farin að dragast aftur úr hinum Norðurlöndunum.“