Fréttir eftir árum


Forsíðufréttir

Hlýtur öndvegisstyrk Rannsóknasjóðs til rannsókna á áhrifum ljósmeðferðar á þreytu

26.1.2018

Háskólinn í Reykjavík fær úthlutað sex styrkjum úr Rannsóknasjóði árið 2018. Heiðdís B. Valdimarsdóttir, prófessor við sálfræðisvið viðskiptadeildar HR, hlýtur öndvegisstyrk vegna rannsóknar sinnar á áhrifum hvítaljóssmeðferðar á krabbameinstengda þreytu hjá konum með brjóstakrabbamein. Af 25 umsóknum um öndvegisstyrki hlutu fjórar styrk.

Ljósmeðferð nýtist konum með brjóstakrabbamein

Auk þess að sinna kennslu og rannsóknum við Háskólann í Reykjavík hefur Heiðdís Valdimarsdóttir stundað rannsóknir við stofnanir erlendis á borð við hið virta Mount Sinai-sjúkrahús í New York og hlutu uppgötvanir hennar á áhrifum ljósmeðferðar á einstaklinga sem eru í krabbameinsmeðferð athygli bandarískra fjölmiðla fyrir rúmu ári síðan.

Heiddis-ValdimarsdottirHeiðdís hefur sýnt fram á að ljósmeðferð, sem er fremur einföld, getur dregið úr þreytu og þunglyndi meðan á krabbameinsmeðferð stendur. Áhrif ljósmeðferðar á einstaklinga sem glíma við skammdegisþunglyndi hafa jafnframt verið rannsökuð á síðustu árum og því renna niðurstöður Heiðdísar stoðum undir þá kenningu að ljósmeðferð myndi hugsanlega nýtast mun stærri hópi.

Hún rannsakar jafnframt hvort hægt sé að koma jafnvægi á lífsklukkuna sem virðist fara úr skorðum hjá þunglyndissjúklingum og í sumum tilfellum krabbameinssjúklingum. Dagsbirtan viðheldur eðlilegum takti lífsklukkunnar og líkur eru á að ljósmeðferð geti hjálpað til við að halda réttum takti.

Aðrir styrkhafar innan HR 

Vísindamenn við HR hljóta jafnframt tvo verkefnisstyrki. David James Thue, dósent við tölvunarfræðideild, hlýtur styrk vegna verkefnis síns um stöðlun mats á stafrænum stjórnendum til að bæta gagnvirka upplifun og Rannveig Sigríður Sigurvinsdóttir, nýdoktor við sálfræðisvið viðskiptadeildar, fær úthlutað verkefnastyrk en hún er að rannsaka áföll, geðheilsu og uppljóstrun kynferðisofbeldis.

Rannsóknastöðustyrki hljóta þeir Antonios Achilleos, nýdoktor við tölvunarfræðideild og Haukur Logi Karlsson, nýdoktor við lagadeild. Verkefni Antonios heitir „Þekkingarrökfræði fyrir dreifða vöktun“ en verkefni Hauks Loga „Sanngjörn saksókn forréttindahópa: greining á hrunreynslu Íslands“. Ian Cassar, doktorsnemi við tölvunarfræðideild, hlýtur doktorsnemastyrk vegna verkefnis síns um þróun fræðilegra undirstaðna fyrir Runtime Enforcement mæliaðferð.

18% hljóta styrk

Alls bárust 342 gildar umsóknir í sjóðinn og voru 63 umsóknir styrktar eða um 18% umsókna. Árlega úthlutar Rannsóknasjóður styrkjum til vísindafólks og nemenda í rannsóknatengdu námi við íslenska háskóla, rannsóknastofnanir og fyrirtæki. Rannsóknasjóður veitir styrki samkvæmt almennum áherslum Vísinda- og tækniráðs og á grundvelli faglegs mats á gæðum rannsóknarverkefna, færni þeirra einstaklinga sem stunda rannsóknirnar og aðstöðu þeirra til að sinna verkefninu.

Einföld ljósmeðferð getur nýst í baráttunni gegn einkennum þunglyndis hjá krabbameinssjúklingum“