Fréttir eftir árum


Fréttir

Hnattrænar áskoranir framtíðarinnar

Evrópsk háskólaráðstefna alþjóðamála haldin í Barcelona

23.9.2022

Dagana 13.-16. september tóku fulltrúar frá alþjóðaskrifstofu HR þátt í ráðstefnu European Association for International Education (EAIE) í Barcelona þar sem um 6300 þátttakendur frá 90 löndum voru samankomnir. Þetta var í 32. skipti sem ráðstefnan er haldin og urðu mikilir fagnaðarfundir kollega eftir tveggja ára rafræn samskipti.

Radstefna-Barcelona-2

Mikilir fagnaðarfundir kollega eftir tveggja ára rafræn samskipti.

Þema ráðstefnunnar í ár var The future in full colour. Áherslur ráðstefnunnar voru m.a jöfn tækifæri og inngilding, sjálfbærni og hvernig alþjóðasamstarf háskóla geti þróast til þess að takast sem best á við hnattrænar áskoranir. 

Helstu áherslur HR til framtíðar eru að standa framarlega á alþjóðavísu í að skapa og miðla þekkingu með gott siðferði, jafnræði og sjálfbærni að leiðarljósi. Þessar áherslur ríma vel við meginþemu ráðstefnunnar. Það er áskorun að vera lítill fiskur í stórri tjörn og ætla sér að vera leiðandi á alþjóðavísu, en að sama skapi getur það verið kostur þar sem til staðar er sveigjanleiki og styttri boðleiðir. HR er öflugur háskóli með áherslu á tækni og samfélag og er með vísindamenn á heimsmælikvarða. Þátttaka í NeurotechEU, evrópska háskólanetinu gefur vísindamönnum, nemendum og starfsfólki færi á þverfaglegu samstarfi milli ólíkra landa.

segir Guðlaug Matthildur Jakobsdóttir forstöðukona alþjóðasviðs.

Radstefna-Barcelona

Valgerður Þórsdóttir, verkefnastjóri alþjóðasviðs og Guðlaug Matthildur Jakobsdóttir, forstöðukona alþjóðasviðs

Á ráðstefnunni gafst tækifæri til að sækja námskeið, viðburði og erindi um málefni sem tengjast alþjóðasamstarfi háskóla í námi og kennslu. Meðal þeirra mála sem voru ofarlega á baugi má nefna evrópsk háskólanet og úrvinnsla og reynslusögur eftir heimsfaraldur og stríðið í Úkraínu. Mikilvægur hluti ráðstefnunnar voru fundir með kollegum samstarfsskóla þar sem skipst var á upplýsingum og hugmyndum og persónuleg tengsl efld.

HR hefur nýverið bæst í hóp þeirra fjölmörgu háskóla sem taka þátt í evrópskum háskólanetum þar sem lögð er áhersla á langtímasamstarf um menntun, rannsóknir og nýsköpun. Háskólanetin eru nú orðin 44 talsins með um 230 háskóla innanborðs. Guðlaug segir það hafa verið áhugavert að heyra af reynslu og árangri nokkurra evrópskra háskólaneta á ráðstefnunni enda vissulega stórt skref stigið þegar stofna á til sjálfbærs og kerfisbundins samstarfs margra háskóla þvert á landamæri, stjórnkerfi og menningu.