HR 52. besti ungi háskóli heims
Háskólinn í Reykjavík (HR) er í 52. sæti á nýjum lista Times Higher Education yfir 100 bestu ungu háskóla í heimi (Young Universities Ranking). Háskólinn hækkar sig verulega frá síðasta ári þegar hann var í 89. sæti. Á listanum eru háskólar sem eru 50 ára og yngri.
Listi Times Higher Edcucation byggir á mati á 13 lykilþáttum háskólastarfs, fjölda tilvitnana í vísindagreinar eftir starfsmenn skólans, gæðum kennslu og rannsókna, alþjóðlegum tengslum og samstarfi við atvinnulífið.
Ari Kristinn Jónsson rektor Háskólans í Reykjavík segist ánægður og stoltur af árangri HR. „Þetta eru einstaklega ánægjulegar fréttir fyrir Háskólann í Reykjavík, starfsfólk skólans og nemendur. Stefna okkar hefur alltaf verið að sinna sem best nemendum okkar og íslensku samfélagi og hafa að leiðarljósi gæðaviðmið alþjóðlegra öflugra háskóla. Það hefur skilað sér í því að HR hefur náð þeim frábæra árangri að skipa sér í fremstu röð meðal háskóla heims. Þessi árangur er fyrst og fremst frábæru starfsfólki Háskólans í Reykjavík að þakka og ég sendi þeim, nemendum skólans og öllum sem standa að HR hamingjuóskir.”Háskólinn í Reykjavík var stofnaður 1998 á grunni Tölvuháskóla Verzlunarskóla Íslands en árið 2005 sameinaðist hann Tækniháskóla Íslands. Um 3600 nemendur stunda nám við Háskólann í Reykjavík, starfsmenn eru um 250 auk fjölda stundakennara.
Listi Times Higher Education