Fréttir eftir árum


Fréttir

HR á réttri leið

21.3.2019

Háskólinn í Reykjavík vinnur markvisst að því að minnka kynjahalla í ákveðnum námsgreinum og starfsemi háskólans er orðin umhverfisvænni. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu HR sem tengist þátttöku hans í PRME, verkefni Sameinuðu þjóðanna menntun ábyrgra leiðtoga.

Með þátttökunni í PRME-verkefninu hefur HR skuldbundið sig til að mennta framtíðarleiðtoga sem hafa samfélagsábyrgð að leiðarljósi í sinni ákvarðanatöku en skammstöfunin stendur fyrir Principles for Responsible Management Education. Háskólar sem taka þátt í PRME þurfa að skila skýrslum á tveggja ára fresti um framgang verkefnisins. Nýlega skilaði HR þriðju PRME-skýrslunni þar sem lesa má um árangur síðustu missera.

Jafnréttismál

Skráningum kvenkyns nemenda í tæknigreinar við HR hefur fjölgað á síðustu árum, meðal annars vegna vinnu /sys/tra, félags kvenna í tölvunarfræði við HR og verkefnisins Stelpur og tækni sem vex fiskur um hrygg á hverju ári. Þar býður háskólinn stelpum úr 9. bekkjum grunnskóla í vinnusmiðjur í HR og tæknifyrirtæki með það að markmiði að vekja áhuga þeirra á tækninámi og störfum í tæknigeiranum og brjóta niður staðalímyndir. Að verkefninu stendur Háskólinn í Reykjavík ásamt Ský og Samtökum iðnaðarins.

Ung kona talar úr ræðupúlti í Sólinni

Eygló María Björnsdóttir, formaður Stúdentafélags HR, setur Jafnréttisdaga 2018.

Hyllir undir jafnlaunavottun

Með því að leggja áherslu á jafnrétti hefur jafnframt náðst góður árangur í starfsemi háskólans. Ný jafnréttisstefna var samþykkt árið 2018 sem snýr að launum og kjörum, ráðningum, framgangi, samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og skilgreiningum og reglum vegna kynbundins ofbeldis og kynferðislegrar áreitni. Hún er mun ítarlegri en fyrri stefna, auk þess að vera aðgerðarbundin. Bakgrunnsupplýsingar fastra starfsmanna hafa verið teknar saman, þ.m.t. menntun, starfstitlar ásamt því að lokið er viðamikilli flokkun allra starfa. Tvær úttektir hafa verið gerðar á launum af óháðum úttektaraðila og hefur samkvæmt þeim náðst árangur í að eyða kynbundnum launamun. HR stefnir að því að hljóta jafnlaunavottun á næstu vikum, fyrstur íslenskra háskóla.

Umhverfismál

Á síðustu árum hafa fyrirtæki og almenningur verið hvött til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnka notkun efna eins og plasts. Háskólinn í Reykjavík tók þessari áskorun og skrifaði undir samning Reykjavíkurborgar og Festu, félags um samfélagslega ábyrgð sem kveður á um að fyrirtæki verði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif með markvissum aðgerðum.

Nemandi útskýrir veggspjaldNemandi útskýrir sína útfærslu á aðgerðum til að draga úr losun gróðuhúsalofttegunda.

Innan HR er starfandi hópur starfsfólks sem leitar leiða til að uppfylla þessi skilyrði yfirlýsingarinnar og jafnframt er starfandi félag nemenda um samfélagslega ábyrgð. Öll plastílát hjá kaffivélum og vatnsvélum í kaffistofum hafa verið fjarlægð. Flokkun sorps var skipulögð upp á nýtt og var bætt við ruslafötu fyrir lífrænan úrgang. Nýlega voru tekin í notkun 12 hleðslustæði fyrir rafmagnsbíla sem bæði nemendur og starfsfólk geta notað og í kjölfar samgöngusamninga við starfsmenn hafa þeir breytt ferðavenjum sínum. Í sumar verða svo byggð langþráð hjólaskýli fyrir nemendur við háskólann.

Námskeið

Háskólinn í Reykjavík leitast við að gera samfélagsábyrgð hátt undir höfði í námskeiðum og kennarar eru hvattir til að leggja áherslu á umhverfismál. Í þriggja vikna áfanganum Nýsköpun og stofnun fyrirtækja, þar sem hópar nemenda setja fram nýjar viðskiptahugmyndir, eru nú eru veitt sérstök verðlaun fyrir þá hugmynd sem þykir skara fram úr út frá umhverfissjónarmiðum. Einnig má nefna námskeiðið Inngangur að tæknifræði og Inngangur að verkfræði þar sem nemendur á fyrsta ári fengu það verkefni að útfæra aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.