Fréttir eftir árum


Fréttir

HR fagnaði tækninámi í 50 ár

3.10.2014

Núverandi nemendur, útskrifaðir nemendur og starfsmenn Háskólans í Reykjavík fögnuðu í gær, 2. október, að 50 ár eru liðin frá því að Tækniskóli Íslands, síðar Tækniháskóli Íslands var fyrst settur, en hann var sameinaður Háskólanum í Reykjavík árið 2005.

Fjölmenn afmælisveisla í Sólinni50 ára afmæli

Öllum fyrrverandi nemendum HR og Tækniskóla Íslands/Tækniháskóla Íslands var boðið í afmælisfagnað í Sólinni kl. 13. Þar bauð Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, gesti velkomna. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, flutti hátíðarávarp og einnig flutti Dagur B. Eggertsson, borgarstjórinn í Reykjavík, nemendum og starfsmönnum kveðju frá Reykjavíkurborg.

Háskólinn og framtíðin

Hálftíma síðar hófst stutt málþing um háskólamenntun á Íslandi í nútíð og framtíð, undir yfirskriftinni Háskólinn og framtíðin. Þar tóku til máls Ari Kristinn Jónsson, rektor HR og Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra. Aðalfyrirlesari þingsins var Donald Sadoway, prófessor við MIT og frumkvöðull í þróun kennslu og kennsluhátta. Fyrirlestur hans hét „Sjálfbær framtíð – hlutverk háskólans“. Hann lýsti þróun nýrrar tækni sem hann vinnur að ásamt nemendum sínum í MIT og fjallaði jafnframt um hlutverk háskóla; hvernig þeir geta með þekkingarsköpun, þróun nýrra tæknilausna, aðstoð við mótun stjórnsýsluramma og viðskiptaumhverfis stuðlað að sjálfbærara samfélagi. Fundarstjóri var Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar.

50 ára afmæliMerkileg tímamót

Við stofnun Tækniskóla Íslands fyrir 50 árum hófst tæknifræðinám á Íslandi og síðar fjölbreyttara tækninám sem áður þurfti að sækja erlendis. Árið 2002 varð Tækniskóli Íslands að Tækniháskóla Íslands og 2005 var skólinn sameinaður Háskólanum í Reykjavík. Við sameininguna var tækni- og verkfræðideild stofnuð, rannsóknir stórefldar og byggt upp öflugt verkfræðinám á grunn og framhaldsstigi. Í dag er deildin sú stærsta á landinu og útskrifar HR tvo þriðju þeirra sem ljúka tækninámi á Íslandi. 

Hægt er að sjá fleiri myndir frá hátíðarhöldunum á facebook-síðu HR