Fréttir eftir árum


Fréttir

HR gerir samning við Tækniháskólann í Tókýó

1.12.2014

Háskólinn í Reykjavík skrifaði undir samstarfssamning við Tækniháskólann í Tókýó (Tokyo Institute of Technology) í nóvember sl. Samningurinn snýr að rannsóknum í tölvunarfræði og nær annars vegar til nemenda- og kennaraskipta, sem nýtist bæði til kennslu og rannsókna, og hins vegar til beins rannsóknasamstarfs m.a. í formi sameiginlegra rannsóknarverkefna. 

HR gerir samning við Tækniháskólann í Tokyo

Dr. Yngvi Björnsson, forseti tölvunarfræðideildar: „Japanir standa framarlega í rannsóknum á mörgum sviðum tölvunarfræði, m.a. í gervigreind og þróun vélmenna og það eru skýr samlegðaráhrif við þær rannsóknir sem verið er að stunda á því sviði í Háskólanum í Reykjavík. Það sama gildir um rannsóknir í fræðilegri tölvunarfræði.“ Yngvi segir saminginn fela í sér að nemendur í framhaldsnámi og kennarar geti verið í rannsóknarsamstarfi við japanska fræðimenn á þessu sviði og dvalið erlendis við rannsóknir og nám.

„Vonandi er þetta fyrsta skrefið í nánara samstarfi skólanna. Það væri mikið gleðiefni ef Háskólinn í Reykjavík og Tækniháskólinn í Tókýó ynnu saman að rannsóknum á fleiri sviðum, enda eru báðir þessir háskólar leiðandi á sviði tæknimenntunar í sínum heimalöndum.“ 

Tokyo Institue of Technology