Fréttir eftir árum


Fréttir

HR hlýtur gullmerki jafnlaunaúttektar PwC

28.8.2020

Háskólinn hefur hlotið gullmerki jafnlaunaúttektar PwC sem greinir hvort fyrirtæki greiði starfsmönnum, óháð kyni, sömu laun fyrir sambærileg störf. Til að hljóta gullmerkið þarf launamunur kynjanna að vera undir 3,5%.

Í launagreiningu í vor kom fram að að launamunur kynjanna mælist vart. Grunnlaun karla reyndust 1,09% hærri en grunnlaun kvenna og munur á heildarlaunum var 1,59%, körlum í hag. Í óháðri úttekt PwC voru karlar með 0,74% hærri grunnlaun en konur og munur á heildarlaunum mældist 0,7% körlum í vil. Þessi munur er ekki marktækur. 

Viðhaldsúttekt á jafnlaunakerfi háskólans, sem gerð var af BSI á Íslandi, lauk í febrúar síðastliðnum. Í skýrslu um úttektina kemur fram að HR hafi sýnt fram á að ferlar og stýringar íafnlaunakerfis háskólans séu hönnuð til að ná markmiðum og stefnu fyrirtækisins í jafnlaunmálum.

HR á réttri leið

„Kynbundinn launamunur á ekki að vera til en hann hverfur ekki af sjálfu sér og við höfum lagt mikla áherslu á að útrýma honum í háskólanum. Að baki þessum niðurstöðum er mikil vinna og það er því ánægjulegt að sjá að við erum á réttri leið og miðar jafnvel hraðar en við gerðum ráð fyrir. Við erum þó ekki hætt, enda markmið okkar alveg skýrt og það er að útrýma kynbundnum launamun að fullu,“ segir Ari Kristinn Jónsson, rektor.

Frá árinu 2016 hefur launamunur kynjanna lækkað um 2,51 prósentustig á grunnlaunum og 2,41 prósentustig á heildarlaunum hjá HR. Háskólinn vinnur eftir jafnréttisáætlun þar sem fram kemur að þess skuli gætt að kynjum sé ekki mismunað og að laun skuli ákveðin á sama hátt fyrir starfsfólk óháð kyni. Allir skulu njóta jafnra kjara fyrir jafn verðmæt og sambærileg störf.

Ester Gústavsdóttir, mannauðsstjóri Háskólans í Reykjavík, með viðurkenninguna sem fylgir gullmerki PwC.