Fréttir eftir árum


Forsíðufréttir

HR hlýtur tvo rannsóknarstyrki

Líðan barna á tímum Covid og bætt meðferð við slitgigt í hné rannsökuð

14.2.2022

Háskólinn í Reykjavík hefur hlotið tvo styrki, annars vegar rúmlega 65 milljóna króna styrk fyrir verkefnið SINPAIN sem er til fjögurra og hálfs árs og hins vegar tæplega 22 milljóna króna styrk fyrir verkefnið LIFECOURSE-ABM sem er til eins og hálfs árs. Báðir styrkirnir eru svokallaðir Proof of Concept styrkir og koma frá Evrópska rannsóknarráðinu (European Research Council). Proof of Concept styrktarkerfið er aðeins opið fyrir rannsakendur sem eru eða hafa áður verið styrktir af Evrópska rannsóknarráðinu.

Háskólinn í ReykjavíkSINPAIN verkefnið er í höndum Paolo Gargiulo, prófessors í verkfræðideild HR, en það er unnið í samstarfi við fjölda háskóla og fyrirtækja í Evrópu og Bandaríkjunum. Verkefnið miðar, í stuttu máli, að því að þróa örugga, skilvirka, hagkvæma og háþróaða meðferð til að meðhöndla slitgigt í hné.

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er slitgigt ein stærsta ástæða hreyfihömlunar hjá eldra fólki og er talinn vera algengur sjúkdómur sem gerir hann að forgangsverkefni í rannsóknum í Evrópu. Eins og er er engin lækning til við sjúkdómnum en SINPAIN hefur sett sér metnaðarfull og krefjandi markmið um að þróa nýja tækni sem gerir það kleift að veita sjúklingum persónulega meðferð í baráttunni við slitgigt.

SINPAIN er annað verkefnið sem Heilbrigðistæknisetur HR hlýtur styrk fyrir en hið fyrra var íslenski hluti rannsóknaverkefnisins RESTORE sem hlaut um 5,5 milljón evra styrk. 

Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor í sálfræðideild HR, og Kristinn R. Þórisson, prófessor við tölvunarfræðideild HR og stjórnandi Vitvélastofnunar Íslands ses, stýra LIFECOURSE-ABM verkefninu, en það er sjálfstætt framhald LIFECOURSE, langtímarannsóknar sem hefur það markmið að dýpka skilning á líffræðilegum og félagslegum áhrifaþáttum á líðan og hegðun unglinga. Í verkefninu hefur verið fylgst með börnum fæddum árið 2004 frá því þau voru í móðurkviði.

Í LIFECOURSE-ABM verkefninu verður smíðað nýtt umfangsmikið hermilíkan byggt á þeim gögnum sem safnað hefur verið undanfarin ár. Þekkingin sem rannsóknunum er ætlað að skila mun auðvelda hagnýtingu LIFECOURSE gagnanna á ýmsan hátt og auðvelda hönnun og þróun skilvirkari áætlana og inngripa til að draga úr áhættuhegðun meðal ungs fólks. Verkefnið mun jafnframt auka vísindalegan skilning á viðfangsefninu og hvernig beita má nýjustu aðferðum úr gervigreind, gagnavísindum, og tölvunarfræði til þróunar nýrra og öflugri verkfæra fyrir félagsvísindarannsóknir.

Þess ber að geta að nú er unnið að því að rannsaka líðan LIFECOURSE hópsins á tímum COVID. Því eru allar fjölskyldur sem eiga barn fætt árið 2004 hvattar til að kynna sér málið á Facebook síðu rannsóknarinnar eða á heimasíðu rannsóknarinnar