Fréttir eftir árum


Fréttir

HR í þriðja sæti háskóla í heiminum þegar horft er til tilvitnana í vísindagreinar eftir starfsmenn

27.9.2018

Áhrif rannsókna HR mikil

Á nýjum lista Times Higher Education (THE) yfir bestu háskóla heims, er Háskólinn í Reykjavík í þriðja til sjötta sæti hvað varðar áhrif rannsókna, ásamt Stanford, MIT og Brandeis háskólunum. Áhrif rannsókna eru metin út frá meðalfjölda tilvitnana í vísindagreinar, það er, hversu oft aðrir vísindamenn vitna í niðurstöður fræðimanna háskólans í ritrýndum vísindagreinum.

Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, segir að þessi árangur sé ekkert annað en stórkostlegur. „Þetta er skýr alþjóðlegur vitnisburður um það öfluga rannsóknastarf sem hefur verið byggt upp við háskólann á undanförnum árum og áratugum. Markmið vísindastarfs er að hafa áhrif með þeirri nýju þekkingu sem sköpuð er og tilvitnanir mæla vel hversu mikil áhrif vísindastarf hefur í hinu alþjóðlega vísindasamfélagi. Að HR sé einn þeirra háskóla sem hefur hlutfallslega mest áhrif sýnir að fræðimenn við háskólann leika stórt hlutverk í sköpun og miðlun nýrrar þekkingar á heimsvísu.“

Einkunn HR í flokki tilvitnana er 99,9 en þeir háskólar sem eru í fyrsta og öðru sæti, Babol Noshirvani tækniháskólinn í Íran og Læknaskóli Brighton og Sussex, eru með einkunnina 100. Listi THE byggir á upplýsingum frá Elsevier um tæplega 68 milljónir tilvitnanir í 14 milljón ritrýndar fræðigreinar, yfirlitsgreinar, bækur, bókakafla og ráðstefnurit, sem gefin hafa verið út síðustu fimm árin. Í einkunnagjöf THE fyrir tilvitnanir er jafnframt tekið tillit til fjölda starfsmanna við háskóla, mismunar á útgáfutíðni milli fræðigreina og fleiri slíkra atriða.

Stórt stökk inn á topp 350

HR tekur einnig stórt stökk upp á við á lista THE yfir bestu háskóla í heimi og er nú listaður á meðal 300 til 350 bestu háskóla heims. Í fyrsta sinn sem HR rataði á listann, sem var í fyrra, var háskólinn í 401.-500. sæti. Listinn byggist m.a. á mati á kennslu, rannsóknum, alþjóðastarfi og orðspori. Í júní síðastliðnum var sagt frá því að HR væri í 89. sæti á lista THE yfir bestu ungu háskólana í heiminum.