Fréttir eftir árum


Fréttir

HR innleiðir markmið Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð í allar deildir

6.12.2017

Metnaður á sviði samfélagsábyrgðar

Háskólinn í Reykjavík hefur gert það að markmiði sínu að draga úr áhrifum starfseminnar á umhverfið og leggja sitt af mörkum til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga. Auk þess vill starfsfólk háskólans vera virkir þátttakendur í að mennta framtíðarleiðtoga sem leggja áherslu á samfélagslega ábyrgð. HR hefur stigið ýmis skref til að ná markmiðum sínum, meðal annars skrifað undir yfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar um loftslagsmál og ákveðið hefur verið að innleiða markmið Sameinuðu þjóðanna um menntun ábyrgra leiðtoga, sem kallast Principles for Responsible Management Education (PRME) inn í allar deildir háskólans. Viðskiptadeild HR hóf innleiðingaferli PRME markmiðanna árið 2013 með ágætum árangri.

Allir nemendur verði ábyrgir þátttakendur

Kjartan Sigurðsson er doktorsnemi við viðskiptadeild og verkefnastjóri innleiðingar markmiða Sameinuðu þjóðanna hjá HR.

Kjartan-Sigurdsson„Í náminu einblíni ég á þetta frábæra fyrirbæri sem kallast samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja. Ég hef nokkra reynslu á þessu sviði, hef komið að verkefnum sem snúa að sjálfbærni og samfélagslegri ábyrgð í fyrirtækjum og gert viðamiklar rannsóknir bæði hér á landi og í útlöndum.“ Eins og áður kom fram snýst verkefnið um innleiðingu PRME um ábyrga stjórnunarhætti með áherslu á samfélagslega ábyrgð og sjálfbærni. Á þessu ári var tekin ákvörðun um að innleiða viðmiðin þvert á deildir HR með það að markmiði að allir nemendur skólans fengju kynningu á því hvað felst í því að vera ábyrgur þátttakandi í samfélaginu, á vinnustaðnum og almennt gagnvart umhverfinu. „Í grundvallaratriðum snýst þetta um að nemendur fái þjálfun og innsýn í framtíðaráætlun Sameinuðu þjóðanna sem snýr að því að innleiða þessa hugmyndafræði og hjálpa þeim að tileinka sér hugsun sem snýr að sjálfbærni og samfélagslegri ábyrgð,“ segir Kjartan.

Fá nemendurna með

Starf Kjartans felst fyrst og fremst í því að móta stefnu, mynda tengsl við starfsmenn deilda og kennara háskólans og jafnframt að kynna fyrir þeim stefnu HR sem varðar samfélagslega ábyrgð. Í því felst einnig að styðja við kennara í þeirra nálgun við að innleiða þessa hugmyndafræði og tileinka sér nýja nálgun og áherslur í þeim kúrsum sem þeir kenna. „Ekki má gleyma því sem snýr að nemendunum en það er einnig veigamikill þáttur í mínu starfi að eiga samtalið við nemendur HR utan kennslustundar. Við ætlum að fá nemendafélög til liðs við okkur í kynningarstarfið, en við teljum það sérlega mikilvægt að nemendur tali sín á milli og geti myndað sér skoðun og tekið þar af leiðandi þátt í umræðum um þessi málefni í kennslustundum sem og meðal jafningja utan kennslustundar.“

Nokkrir nemendur HR í sérmerktum bolum standa hlið við hliðNemendur HR munu taka þátt í samtalinu um samfélagsábyrgð og sjálfbærni.

Stefna HR sé áberandi

Kjartan segir stóran hagsmunahóp einnig vera utan HR og að mikilvægt sé að stefna háskólans í málefnum sem varða samfélagslega ábyrgð, sjálfbærni og aðkomu hans að umhverfismálum á Íslandi sé sett fram með þeim hætti að hún sé aðgengileg. „Þegar farið er af stað í stefnumótun sem þessa þá er mikilvægt að hún leiði til þess að markmiðin séu skýr og aðgengileg, að hver sá sem hefur áhuga á að kynna sér stefnu okkar í þessum málaflokki og geti nálgast hana á einfaldan hátt. Það er í mínum verkahring og þess frábæra fólks sem ég er svo lánsamur að hafa aðgang að og vinn með að þessum málum að sjá til þess að vel til takist.“