Fréttir eftir árum


Fréttir

HR og Eimskip í samstarf um frumkvöðla- og nýsköpunarstarf, rannsóknir og menntun

24.11.2016

Nemendum við Háskólann í Reykjavík gefst kostur á að vinna að fjölbreyttum verkefnum sem tengjast starfsemi Eimskips hér á landi og erlendis, samkvæmt samstarfssamningi sem undirritaður var í vikunni. Samningurinn er til þriggja ára og miðar að því að efla samstarf á sviði frumkvöðla- og nýsköpunarstarfs, rannsókna og menntunar í tengslum við starfsemi Eimskips.

Forstjóri Eimskip og rektor HR takast í hendurGylfi Sigfússon, forstjóri Eimskip, og Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, handsala samninginn í Sólinni í HR.

Nýr rannsóknasjóður

Samkvæmt samningnum verður m.a. stofnaður rannsóknasjóður á vegum Eimskips til að styrkja rannsóknir og verkefni  starfsmanna og nemenda Háskólans í Reykjavík á sviði flutninga með áherslu á þarfir Eimskips. Nýjungar í notkun gáma, endurvinnsla og lágmörkun umhverfisáhrifa verða í forgrunni. Aðstaða til að vinna að slíkum samstarfsverkefnum verður í húsnæði Eimskips í Sjávarklasanum á Grandagarði, á skrifstofu Eimskips í Sundahöfn og í HR.
 
Nemendum við HR mun einnig gefast tækifæri til að stunda skipti-starfsnám (e. Internship Exchange) á starfsstöðvum Eimskips erlendis. Er þá sérstaklega horft til starfsstöðvar Eimskips í Portland, Maine, í tengslum við nýgerðan samstarfssamning HR og University of Southern Maine (USM). Í því felst að nemendum HR býðst að taka blöndu af skiptinámi og starfsnámi hjá USM og Eimskip í Portland, og fá metið til eininga í námi sínu við HR.

Þróun náms í flæðisstjórnun

Þá mun Eimskip vinna með sérfræðingum HR að uppbyggingu á námsframboði í flæðisstjórnun (logistics) fyrir nemendur tækni- og verkfræðideildar, tölvunarfræðideildar og viðskiptadeildar. „Flutningar og tengd starfsemi eru mjög mikilvægur þáttur í öllum viðskiptum og daglegu lífi fólks og það er mikil eftirspurn eftir fólki með þekkingu og reynslu á því sviði. Það er þess vegna mjög ánægjulegt að fá Eimskip með í hóp öflugra samstarfsfyrirtækja háskólans,“ sagði Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, við undirskrift samningsins.
 
Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips sagði: „Samstarf Háskólans í Reykjavík og Eimskips er mikilvægt og spennandi fyrir okkur hjá Eimskip. Við lítum til þess að Háskólinn í Reykjavík hefur á undanförnum árum verið í sterkum tengslum við atvinnulífið, en skólinn er einnig í nánum samskiptum við háskólasamfélagið í Maine fylki í Bandaríkjunum þar sem höfuðstöðvar Eimskips í Ameríku eru. Við væntum mikils af þessu samstarfi og sjáum tækifæri í því fyrir félagið. Einnig er mikill kostur að samstarfið fellur vel að stefnu félagsins í umhverfis- og samfélagsmálum.“