Fréttir eftir árum


Fréttir

HR og HÍ skrifa undir samstarfssamning um rannsóknir í taugavísindum

20.3.2015

Í gær, fimmtudaginn 19. mars, undirrituðu rektorar Háskóla Íslands (HÍ) og Háskólans í Reykjavík (HR) samning milli tækni- og verkfræðideildar HR og Lífvísindaseturs HÍ um aukið rannsóknasamstarf háskólanna í lífvísindum þar sem sebrafiskar eru notaðir sem tilraunadýr.

Samningur HR og HÍ undirritaður

Eiríkur Steingrímsson, prófessor við heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands, Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, Ari Kristinn jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík og Karl Ægir Karlsson, prófessor við tækni- og verkfræðideild.

Háskólinn í Reykjavík hefur, í kringum rannsóknir í taugavísindum, byggt upp góða aðstöðu til rannsókna á sebrafiskum. Þar hefur verið þróuð tækni til atferlismælinga sem nýta má til margvíslegra rannsókna og hefur þegar verið hagnýtt til lyfjaskimana. Lífvísindasetur Háskóla Íslands er samstarfsvettvangur rannsóknahópa sem stunda sameindalíffræðilegar rannsóknir í því augnamiði að stuðla að samnýtingu tækja og aðstöðu og byggja upp öfluga kjarnastarfsemi í lífvísindum sem styðja við starfsemina. Starfsemi setursins nær því ekki einungis til rannsóknahópa innan Háskóla Íslands heldur til fjölda annarra stofnana. Lífvísindasetrið hefur nýlega byggt upp svokallaða CRISPR-tækni til erfðabreytinga og mun leggja til sérþekkingu um erfðabreytingar á sebrafiskum til grunnrannsókna.

Sækja saman um styrki

Saman munu vísindamenn Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík nota þessa aðstöðu og tækni til að herma sjúkdóma í mönnum í sebrafiskum, framkvæma rannsóknir á virkni þeirra gena sem skipta máli í því tilliti og leggjast í skipulega leit að lyfjum sem gætu gagnast gegn sjúkdómunum. Tæknin mun nýtast til rannsókna í sameindalíffræði, taugavísindum, þróunarfræði og á atferli og mun efla skilning á því hvernig gen og umhverfi hafa áhrif á svipfar lífvera. Sameiginlega munu háskólarnir stuðla að frekari fjármögnun starfseminnar með rannsóknastyrkjum og styrkjum til tækjakaupa. Að auki mun samstarfið leiða til fjölda nemendaverkefna á öllum námsstigum og greiða fyrir samstarfi við fleiri rannsóknarhópa hérlendis og erlendis.

Samstarfið til góðs fyrir nemendur

„Þessi samstarfssamningur HR og HÍ er jákvætt og gott skref í því að efla enn frekar rannsóknir og þróun á Íslandi á sviði lífvísinda. Samstarf háskólanna í rannsóknum hefur almennt verið mjög gott, en með þessum samningi styðjum við betur við aðgengi vísindamanna að aðstöðu fyrir rannsóknir, eflum samstarf um verkefni og síðast en ekki síst sköpum enn betri umgjörð fyrir nemendur í rannsóknartengdu námi á þessu sviði,“ segir Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík.

„Starfsemi Lífvísindaseturs Háskóla Íslands, sem starfar á Heilbrigðisvísindasviði, er gott dæmi um þverfræðilegt samstarf, bæði innan skólans og utan, sem hefur leitt til sóknarfæra og aukins árangurs.  Þar hefur skapast öflug liðsheild vísindamanna og stúdenta og áhersla lögð á uppbyggingu innviða, samnýtingu tækjabúnaðar og eflingu samstarfs þvert á fræðigreinar.  Við fögnum því þeim samningi sem undirritaður er í dag við Háskólann í Reykjavík og þeim tækifærum sem fylgja fyrir vísindamenn og stúdenta beggja háskóla.  Það er tilhlökkunarefni að fylgjast í framhaldinu með sebrafiskunum og hvernig þeir nýtast við rannsóknir á eðli sjúkdóma og nýjum leiðum til lyfjagjafa og lækninga,“ segir Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands.

HR og HÍ skrifa undir samning í taugavísindum