Fréttir eftir árum


Fréttir

HR og Landsnet í samstarf um nýtt rannsóknarsetur á sviði sjálfbærni

6.2.2019

Nýting orku, snjallnet og orkuskipti

Háskólinn í Reykjavík og Landsnet hafa skrifað undir samstarfssamning til fimm ára um menntun og rannsóknir á sviði flutnings og vinnslu endurnýjanlegrar raforku. Landsnet verður, samkvæmt samningnum, stofnaðili að nýju Rannsóknarsetri HR um sjálfbærni (RU Research Center on Sustainability).

Meðal viðfangsefna rannsóknarsetursins má nefna rannsóknir á flutningi raforku, nýtingu orkunnar, raforkumarkaði, orkuskiptum, snjallneti og stafrænni þróun. Með stofnun rannsóknarsetursins fæst aukinn slagkraftur í rannsóknir á þessu sviði en markmið rannsóknarsetursins verður að efla rannsóknir á starfssviði Landsnets og annara raforkufyrirtækja.

Í samningnum er fjallað um mikilvægi þess að jafna stöðu kynjanna í orkugeiranum og að vinna þurfi með virkum hætti að því að laða fleiri konur að námi sem opnar möguleika á starfsferli innan orkugeirans. Sem liður í þessu tekur Landsnet áfram þátt í átaksverkefninu Stelpur og tækni sem HR skipuleggur ár hvert með það að markmiði að vekja áhuga stelpna í grunnskóla á möguleikum í tækninámi og störfum í tæknigeiranum.

Ennfremur geta starfsmenn Landsnets samkvæmt samningnum tekið svokallað þróunarmisseri við HR. Þróunarmisseri (e. Corporate Sabbatical) felur í sér að starfsmenn Landsnets geta fengið leyfi frá hefðbundnum daglegum störfum til að sinna rannsóknum innan HR.

Hópur fólks stendur saman í hópFulltrúar Landsnets og HR við undirskrift samningsins.