Fréttir eftir árum


Fréttir

HR verðlaunar starfsmenn fyrir kennslu, rannsóknir og þjónustu

Eyjólfur, Lóa og Hannes hlutu verðlaunin í ár. 

31.3.2017

Verðlaun Háskólans í Reykjavík fyrir framúrskarandi kennslu, þjónustu og rannsóknir voru afhent í gær. Verðlaunin eru veitt á hverju ári og er markmiðið með þeim að hvetja kennara og starfsfólk háskólans til nýsköpunar, þróunarstarfs, rannsókna og framúrskarandi kennslu og þjónustu. Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra afhenti verðlaunin.

Verðlaunahafar HR verðlaunanna árið 2017 standa með rektor og menntamálaráðherra.
Frá vinstri: Ari Kristinn Jónsson, Lóa Hrönn Harðardóttir, Eyjólfur Ingi Ásgeirsson, Hannes Högni Vilhjálmsson og Kristinn Þór Júlíusson.

Verðlaunahafarnir í ár eru Eyjólfur Ingi Ásgeirsson, dósent við tækni- og verkfræðideild, sem hlaut kennsluverðlaunin; Lóa Hrönn Harðardóttir, náms- og starfsráðgjafi, sem hlaut þjónustuverðlaunin og Hannes Högni Vilhjálmsson, dósent við tölvunarfræðideild, sem hlaut rannsóknaverðlaunin.

Kennsluverðlaun

Kennsluverðlaun HR 2017 hlýtur Eyjólfur Ingi Ásgeirsson, dósent við tækni- og verkfræðideild. Við veitingu kennsluverðlauna HR er horft til fjölmargra þátta, svo sem nýsköpunar í skipulagi og þróun nýrra námskeiða, notkun fjölbreytts námsmats, notkun upplýsingatækni, góðra tengsla við nemendur og fleira. Eyjólfur leitar stöðugt nýrra leiða til að koma námsefninu sem allra best til skila til nemenda og er óhræddur við að nýta sér nýja tækni og prófa nýjar aðferðir. Hann er þekktur fyrir mjög gott skipulag og nemendur hans hafa greiðan aðgang að fjölbreyttu kennsluefni, sem hefur skilað sér í mjög góðu kennslumati.

Þjónustuverðlaun

Þjónustuverðlaunin í ár hlýtur Lóa Hrönn Harðardóttir, náms- og starfsráðgjafi. Við veitingu þjónustuverðlauna HR er horft til gæða þjónustu, skjótra viðbragða, góðs viðmóts, frumkvæðis, tengsla við starfsmenn og nemendur, samstarfs við önnur svið HR, þekkingu og færni á fagsviði. Lóa Hrönn er þekkt meðal nemenda og starfsfólks HR fyrir fagmennsku, góða þjónustu og viðmót. Í tilnefningum til verðlaunanna kom fram að Lóa Hrönn sinni krefjandi málaflokki af mikilli nærgætni og fagmennsku, og hafi jákvæð og bætandi áhrif á líf nemenda.

Rannsóknaverðlaun

Hannes Högni Vilhjálmsson, dósent við tölvunarfræðideild, hlýtur rannsóknarverðlaun HR árið 2017. Við veitingu rannsóknaverðlaunanna er m.a. horft til birtinga á ritrýndum vettvangi, öflun styrkja, framlags til rannsóknavirkni HR, leiðbeiningu nemenda í rannsóknanámi, þátttöku í mótun rannsóknarsetra og tengingar rannsókna við atvinnulíf og samfélag. Hannes Högni hefur verið mjög öflugur í rannsóknum og birt fjölda ritrýndra greina sem mikið er vitnað í. Hann hefur leiðbeint nýdoktorum, doktorsnemum og fjölda meistaranema, auk þess að vinna að rannsóknaverkefnum með grunnnámsnemendum. Hann hefur og aflað fjölda styrkja síðustu ár sem nýtast við rannsóknir við HR. Hann hefur tekið virkan þátt í uppbyggingu rannsóknasetra við HR og mikið unnið með fyrirtækjum. Enn fremur hefur hann miðlað þekkingu til almennings á fjölbreyttan hátt.