Fréttir eftir árum


Fréttir

HR verðlaunin afhent

9.9.2019

Verðlaun Háskólans í Reykjavík voru afhent í gær, föstudag. Verðlaunin hljóta þeir starfsmenn háskólans sem þykja hafa skarað fram úr í rannsóknum, kennslu og þjónustu. Verðlaunin í ár hlutu Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, prófessor við verkfræðideild; Olivier Matthieu S. Moschetta, lektor við verkfræðideild og Einar Magnússon, starfsmaður í yfirsetu prófa.

Á mynd frá hægri Einar Magnússon, starfsmaður í yfirsetu prófa, Olivier Matthieu S. Moschetta, lektor við verkfrdeild, Ólafur E. Sigurjónsson, prófessor við verkfrdeild og Dr. Ari K. Jónsson Rektor HRÁ mynd frá hægri: Einar Magnússon, starfsmaður í yfirsetu prófa, Olivier Matthieu S. Moschetta, lektor við verkfræðideild, Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, prófessor við verkfræðideild og Dr. Ari Kristinn Jónsson, Rektor HR.

Verðlaun HR voru fyrst veitt árið 2010. Valið fer fram þannig að nemendur og starfsmenn tilnefna einstaklinga en val á verðlaunahöfum er í höndum dómnefndar sem styðst við upplýsingar um kennsluferil, kennslumat, rannsóknarmat, ferilskrá og fleira.

Rannsóknarverðlaun HR
Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, prófessor við verkfræðideild, hlaut rannsóknarverðlaun HR 2019. Hann hefur m.a. stundað rannsóknir á sviði endurmyndunar-læknisfræði (e. regeneratvie medicine), vefjaverkfræði og blóðbankafræði. Við veitingu rannsóknaverðlauna er horft til fjölda þátta eins og birtinga á ritrýndum vettvangi, öflun styrkja, framlags til alþjóðlegs vísindasamfélags, þjálfun nemenda í rannsóknum og tengingu rannsókna við atvinnulíf og samfélag. Ólafur hefur á starfsferli sínum verið afkastamikill rannsakandi og öflugur í nýsköpunarstarfi, hann hefur tekið virkan þátt í alþjóðlegu rannsóknastarfi og átt þátt í, eða borið ábyrgð á, öflun 45 stærri og smærri rannsóknarstyrkja.

Kennsluverðlaun HR
Handhafi kennsluverðlaunanna í ár er Olivier Matthieu S. Moschetta, lektor við verkfræðideild. Við veitingu kennsluverðlauna er horft meðal annars til nýsköpunar í skipulagi og hönnun námskeiða, þróun nýrra námskeiða, notkun fjölbreytts námsmats, notkun upplýsingatækni, skipulags, tengsla við nemendur, gerð kennsluefnis og margs fleira. Í umsögn nemenda sagði meðal annars: Olivier er frábær kennari, ánægjulegt að eiga í samskiptum við hann, hann leggur sig fram um að hjálpa nemendum sínum og leggur mikinn metnað í kennsluna og mætir í alla dæmatíma. Hann leggur sig fram um að nemendur skilji viðfangsefnið.“

Þjónustuverðlaun HR
Handhafi kennsluverðlaunanna í ár er Einar Magnússon, starfsmaður í yfirsetu prófa. Við ákvörðun um úthlutun þjónustuverðlauna er horft til gæða þjónustu, skjótra viðbragða, góðs viðmóts, frumkvæðis, tengsla við starfsmenn og nemendur, samstarfs við önnur svið HR ásamt þekkingar og færni á fagsviði. Í umsögn nemenda sem tilnefndu Einar sagði m.a.: „Einar er alltaf í góðu skapi, hann er hress í viðmóti við stressaða nemendur og hefur góða nærveru.“

Við óskum handhöfum verðlauna Háskólans í Reykjavík árið 2019 til hamingju með viðurkenninguna.