HR verðlaunin afhent í dag
Starfsfólk HR verðlaunað fyrir þjónustu, kennslu og rannsóknir
John David Baird, Kári Halldórsson og Erna Sif Arnardóttir hlutu HR verðlaunin í dag.
Ár hvert tilnefnir starfsfólk og nemendur HR þau sem hafa verið framúrskarandi á sviði þjónustu, kennslu og rannsókna.
Í ár hlaut kennsluráðgjafinn John David Baird þjónustuverðlaunin. John hefur verið afar mikilvægur hlekkur í að koma kennslu í stafrænt form og veita kennurum ómetanlegan stuðning og aðhald á þessum fordæmalausu tímum sem hafa verið mikil áskorun fyrir kennara.
Kári Halldórsson, kennari við tölvunarfræðideild, hlaut kennsluverðlaunin í ár. Kári hefur einstakt lag á að vekja áhuga nemenda á efninu, gefa þeim góðan tíma til að fara yfir það sem er torskilið og þykir sýna einstakan stuðning, skilning og virðingu.
Erna Sif Arnardóttir, lektor við tölvunarfræðideild og verkfræðideild, hlaut rannsóknarverðlaunin í ár. Erna Sif leiðir Svefnbyltinguna, þverfaglegt og alþjóðlegt rannsókna- og þróunarverkefni þar sem leiðum til þess að mæla og skrá svefn og svefnraskanir er umbylt. Verkefnið fékk tveggja og hálfs milljarðs styrk frá Evrópusambandinu sem er með því allra mesta sem verkefni með Íslending í fararbroddi hefur hlotið í styrk.